02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (916)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Jakob Möller:

Grauturinn er nú farinn að brenna við hjá hv. þm. Vestm. Það er alveg sama úr þessu, hversu mikið og duglega sem hv. þm. hrærir í honum, þá bjargar það ekki málstað hv. þm. Það, sem gerir hv. þm., er það, að hann blandar saman tvennu ólíku: innflutningi vína og sölufyrirkomulagi innanlands. Það hefir t. d. engin þjóðaratkvgr. farið fram um það, hvort leyfa skyldi staupasölu á brennivíni, svo sem eitt sinn var. En að leyfa sölu á sterku öli er í raun og veru alveg hið sama og að leyfa staupasölu. Í báðum tilfellum er nokkuð sterkt áfengi selt í smáskömmtum. Hv. þm. ruglar því saman tveim óskyldum málum: hvort vera skuli aðflutningsbann og hvernig sölu skuli hagað. Ég vona, að hv. þm. skilji, að á þessu tvennu er munur.

Hv. þm. Vestm. vill láta styrkleika þessa öls fara eftir því, sem framleiðendur þess telja hæfilegt. Þeir fara vitanlega eftir því, hvað þeir telja sér mest til hagnaðar, og má þá vera, að þeir vilji hafa ölið nokkuð sterkt. Nú veit hv. þm. Vestm. sjálfsagt, að erlendis er framleitt öl í stórum stíl, sem hefir minna en 31/2% vínandamagn. Þetta er gert, jafnvel þó meira áfengismagn sé ekki bannað þar. Þetta bendir til þess, að ölið þoli geymslu enda þótt áfengismagnið sé ekki mikið. Væri sönnu nær, að leitað væri álits efnafræðinga, sem óvilhallir eru um þetta mál og skýrðu það frá vísindalegu sjónarmiði. Til slíkra ráðunauta einna getur þingið verið þekkt fyrir að leita. Ég mun svo ekki ræða þetta meir. Ég hygg óþarft að hafa ölið svo sterkt, að nemi 31/2%. Hinsvegar má vera, að hentugt sé að hafa það örlítið sterkara en nú er gert. Það eitt, sem liggur fyrir, er að leyfa framleiðslu á slíku öli til útflutnings. Öðru, sem fram hefir komið, er alger óþarfi að blanda saman við það mál.