15.11.1933
Neðri deild: 10. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (939)

17. mál, framfærslulög

Jón Pálmason:

Það er kunnugt mál, að það, sem þjakar einna mest mörgum héruðum, er það, hve fátækraframfærslan hvílir þungt á þeim, vegna þess hve mjög hún kemur misjafnt niður á hinum ýmsu héruðum. Það er því fyllilega kominn tími til að gera breyt. á framfærslulöggjöfinni, og er ég flm. fyllilega sammála um það, að heimilið eigi að ráða framfærslurétti, en ekki fæðingarhreppur né viss dvalartími. En ég vil benda hér á viss atriði, svo að þau verði athuguð í n. þeirri, sem fær þetta mál til meðferðar. Eins og hv. flm. skýrði frá, voru á þingi 1932 samþ. lög til að jafna framfærslubyrðina nokkuð innan héraða með ríkissjóðsframlagi. þetta var látið koma í staðinn fyrir stærri og eðlilegri breytingar á fátækralöggjöfinni. En ég verð nú að efast um, að heppilegt sé að láta ríkissjóð kosta alveg þessa jöfnun. Ég hallast að því, að betra sé að jafna milli hinna einstöku hreppa innan hverrar sýslu, en ef framfærslukostnaður er mjög misjafn milli sýslu- og bæjarfélaga, mætti jafna þann mismun með framlagi úr ríkissjóði.

Þá er vafasamt, hvort rétt er í sambandi við þetta að fella niður ríkissjóðsstyrk til að kosta sjúkrahúsvist þurfalinga. þessi atriði tel ég, að þyrfti að athuga í nefnd, en annars vil ég mæla með því, að frv. verði afgr. með því að mér er annt um, að aðalatriði þess komist í lög.