21.11.1933
Neðri deild: 15. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (961)

27. mál, lax og silungsveiði

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Landbn. hefir tekið frv. þetta til flutnings samkv. ósk atvmrh. og Pálma Hannessonar. Frv. felur í sér þrjár breyt., sem er með öllu óumflýjanlegt að gera á núgildandi laxveiðalögum og hafa komið ljós við framkvæmd laganna. Hér er ekki farið inn á að þessu sinni nein þau atriði, sem breyta stefnu þessara 1., og væri þess þó full þörf. Þau atriði, sem hér er farið fram á að breyta, eru: Í fyrsta lagi að setja ákvæði um, hve lengi megi veiða lax á stöng fram eftir hausti, en slík ákvæði vantar með öllu. Í öðru lagi um gamlar lagnir, að mat skuli skera úr, hver skuli víkja, ef 2 eða fleiri eiga og of stutt er á milli þeirra samkv. ákvæðum laganna.

Þá er hér ákvæði um það, er menn þurfa að fá seiði til klakhúsa. Í núgildandi l. er veiði til klaks aðeins heimiluð í því fiskihverfi, sem klakið er i. En þráfaldlega verður að koma upp klakhúsum, þar sem enginn kostur er stofnfiskjar, og verður því að leita þar til annara. Í þessu frv. er því lagt til, að þessu verði breytt, en þó svo vægilega í sakirnar farið, að veiði til klaks í öðru fiskihverfi en þar, sem klakið er, er því aðeins heimiluð, að viðkomandi veiðieigendur og fiskiræktarfélag samþykki.

Ég held því ástæðulaust að taka málið af dagskrá nú. Breyt. þær, sem frv. felur í sér, eru engar stórvægilegar, en óánægja yfir l. eins og þau eru er það mikil, að nauðsyn er að breyta þeim nú þegar.