24.11.1933
Neðri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (967)

27. mál, lax og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Ég minntist á það við 1. umr., og ítrekaði það við 2. umr. þessa frv., að það hefði komið í ljós við framkvæmd þessara 1., að einstaka veiðieigendur hafa misst alla aðstöðu til laxveiða vegna ákvæða l. Nú verður því varla neitað, að það sé nokkuð hart að setja l., sem taka af mönnum mikilsverða fjáröflunarmöguleika, án þess að þeir sömu menn eigi þess nokkurn kost að fá skaða sinn bættan. Tilgangurinn með þessari laxveiðalöggjöf og takmörkunum heim, er hún setur við laxveiði, var sá, að bæta þannig aðstöðuna, að veiði gæti orðið meiri í framtíðinni. Og það er vel trúlegt, að menn sætti sig við þessar takmarkanir, er þeir eiga von á aukinni veiði þeirra vegna þegar fram líða stundir. En fyrir þá, sem l. hafa svipt öllum veiðiréttindum, nær sú huggun skammt. Þarna er tekinn af þeim réttur, sem þeir hafa átt og notfært sér um margra ára skeið, verðmæti, sem þeir hafa keypt með jörðinni. Og þetta er gert an þess að ráð sé gert fyrir neinum bótum. — Það er því ekki fjarri lagi, að menn hafa talað um það, hvort þarna sé ekki gengið of nærri því ákvæði stjskr., sem á að vernda eignarrétt þegnanna. Það má auðvitað segja, að þeir menn, sem verða fyrir barðinu á þessum l., gætu leitað til dómstólanna. En nú er að því að gæta, að margir þeirra eru fátækir menn, — og það er erfitt fyrir fátæka menn að leggja út í svo umfangsmikil og kostnaðarsöm málaferli sem þessi gætu orðið, því að búast má við, að slík mál gengju í gegnum bæði undirrétt og hæstarétt. Því er það, að ég ber fram brtt. á þskj. 134, þess efnis, að þeir menn, sem misst hafa alla aðstöðu til veiða vegna ákvæða l., geti gert kröfur til skaðabóta úr ríkissjóði, eftir mati samkv. reglum 83. gr. laxveiðal. Ég held, að því verði ekki í móti mælt, að þessir menn eigi sanngirniskröfu á hendur ríkissjóði, og því fremur, sem gert er ráð fyrir, að í sumum tilfellum verði þeim, sem bíða tjón eftir ákvæðum l. þessara, bættur skaðinn. Ég vænti, að hv. d. líti á þetta sömu augum og ég.

Annars er það svo með þessi l., að margt í þeim orkar mjög tvímælis, enda er almenn óánægja með þau. Ég hefi ekki séð mér fært að koma með gagngerðar brtt. á þessu stigi málsins. Enn er ekki nema ársreynsla fengin fyrir l., og ég er viss um það, að eftir því sem fram líða stundir koma ágallar þeirra skýrar í ljós, og verður þá hægara fyrir með nauðsynlegar endurbætur og breytingar. Ég fjölyrði svo ekki meira um þetta að sinni, en vænti þess, að brtt. minni verði vel tekið.