24.11.1933
Neðri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (968)

27. mál, lax og silungsveiði

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Það liggur fyrir brtt. frá landbn. á þskj. 137. Hún er þess efnis, að möskvastærð neta verði færð niður. Nú er gert ráð fyrir því, að milli hnúta á blautu neti skuli vera 4,5 cm., og er það allstór riðill. Að vísu kemur smálax í slík net, en þeir, sem silungsveiði stunda, eru að miklu leyti útilokaðir frá veiði vegna þessa ákvæðis. N. hefir borið þetta mál undir Pálma rektor Hannesson, sem mest hefir haft við þessi mál að gera, og gekk hann inn á þessa breyt. fyrir sitt leyti.

Hv. þm. Borgf. flytur brtt. þess efnis, að þeir, sem missi rétt til veiða vegna l., geti gert skaðabótakröfu til ríkissjóðs. N. hefir óbundnar hendur um þessa till. Ég get sagt það fyrir mig, að mér finnst þessi till. eðlileg, en óttast á hinn bóginn, að henni fylgi alllangur hali áður lýkur. Ég harma það, að ekki skyldi vera sett þannig ákvæði í l., að þeir, sem hefðu hagnað af ákvæðum l., bættu þeim upp, sem fyrir skaða verða vegna l.; þegar veiðiréttindi eru blátt áfram tekin af einum og gefin öðrum, þá finnst mér ekki nema eðlilegt, að þar verði reynt að jafna eitthvað á milli. En þessa hefir ekki verið gætt, og nú er svo komið, að sennilega verður ríkissjóður að borga brúsann. Og ég teldi ekki ólíklegt, að það yrðu nokkuð stórar upphæðir, ef til kæmi. Á hinn bóginn tel ég það mjög illa að farið og ekki geta komið til mála, að svipta menn eignum eða hlunnindum, sem fylgt hafa jörðum þeirra um ómunatíð.