24.11.1933
Neðri deild: 18. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (970)

27. mál, lax og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Ég minnist þess, að þegar rætt var um þetta á þinginu 1932, þá var því mjög haldið á lofti, að fullkomið öryggi ætti að felast í því, að í slíku ákvæði sem þessu væri ekki gengið svo langt, að það kæmi í bága við stjskr. að því er snertir friðhelgi eignarréttarins, að í þessari laxveiðanefnd hefði setið lögfræðingur, sem þar að auki væri líka prófessor við háskólann. Það getur vel verið, að leggja megi svo strangan og einstrengingslegan skilning í löggjöfina um þetta efni, að siglt verði framhjá þessu skeri, en ég verð þó að segja það, að þegar athuguð er 63. gr. stjskr., þá hygg ég, að í ljós komi, að sá skilningur er mjög einstrengingslegur.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa þessa grein: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir“. Nú er eignarréttur þessara manna í stórum stíl tekinn af þeim gersamlega, an þess að nokkrar bætur komi í staðinn. Þess vegna finnst mér nokkuð einstrengingslegur skilningur á þessum ákvæðum stjskr., að það sé í fyllsta mata hægt að samrýma þessi eignarréttarskerðingarákvæði laxveiðalöggjafarinnar við 63. gr. stjskr.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta atriði, en ég býst a. m. k. við því, að umkomuleysi og getuleysi sumra þeirra manna, sem hafa orðið fyrir barðinu á þessari löggjöf, muni verða þess valdandi, að á þetta verði ekki reynt.

Hæstv. atvmrh. tók mjög vinsamlega í þessar till., og þau nánari ákvæði, sem hann talaði um, að þyrfti að setja. hefi ég ekkert við að athuga. Ég sé vel, að þar sem svo margir menn eru hart leiknir, þá getur þetta orðið töluverð upphæð. Það má hinsvegar engan veginn hafa áhrif á hugi manna í þessu efni, þó að svo verði, þar sem þetta er sanngirniskrafa gagnvart þeim mönnum, sem ranglæti eru beittir, og eftir hví verða menn að haga atkv. sínum, en ekki eftir hinu, hve víðtæk áhrif þetta getur haft í för með sér fyrir ríkissjóð.

Ég tel þó vitanlega sjálfsagt að viðhafa allar varúðarreglur til þess að þetta verði ekki misnotað, því að um það er mér eins annt og hæstv. atvmrh.