09.12.1933
Sameinað þing: 14. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

Þinglausnir

forseti (JBald):

Störfum þessa Alþingis er nú lokið. Það var saman kallað til þess að leggja fullnaðarsamþykki á breytingu þá á stjórnskipunarlögum landsins, sem samþykkt var á síðasta Alþingi, og til þess að samþykkja kosningalög í samræmi við hina nýju stjskr.

Það er sjálfsagt ekki óblandin ánægja með afgreiðslu þessara mála, en reynslan á eftir að sýna, hvernig þau gefast í framkvæmd.

Merkilegust atriði í hinni nýju stjórnarskrá eru aukinn kosningarréttur með lækkun aldurstakmarks og burtfellingu þess, að veittur sveitarstyrkur valdi missi kosningarréttar, svo og ákvæðin um landslista og um uppbótarþingsæti til þess að jafna mismun milli flokka, er fram kann að koma við kjördæmakosningar.

Ég óska alþingismönnum, sem heima eiga utan Reykjavíkur, góðrar heimferðar og öllum gleðilegra hátíða.