14.11.1933
Efri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (988)

12. mál, húsnæði fyrir fornmenja og málverkasafnið

Flm. (Jónas Jónsson):

Í grg. fyrir þessari till. hefi ég gert grein fyrir því í aðaldráttunum, sem ég vil, að komi til athugunar í þessu máli.

Aðalatriðið í þessu máli er það, að landið hefir ekkert húsnæði fyrir þjóðmenjasafnið eða málverkasafnið. Þjóðmenjasafnið er nú á efsta lofti í landsbókasafnsbyggingunni. Er húsrúmið þar allt of lítið fyrir safnið, en hitt skiptir þó mestu máli, að safnið er þar í mikilli hættu af eldi, t. d. ef stórbruni yrði hér í Reykjavík eða ef kviknaði út frá raflögn í safnhúsinu sjálfu, sem alstaðar getur komið fyrir. Er sérstök ástæða til að athuga þetta, því að sumir hlutir í forngripasafninu eru svo mikils virði, að þeir mundu seljanlegir fyrir mörg hundr. þús. kr. Valþjófsstaðahurðin, sem Danir skiluðu aftur 1930, mun þannig vera seljanleg fyrir jafnvel allt að hálfri millj. kr. á amerísk söfn. Þótt ekki sé meiningin að selja þessa muni, þá sýnir þetta, hve mikil áhætta er að hafa þetta dýrmæta safn þannig í stöðugri eldhættu. Landsbókasafnið mun og sjálft vera í fullri þörf fyrir að fá þetta húsrúm fyrir sig, þótt ég geri ekki ráð fyrir, að sá ástæða hafi þótt nægileg í þessu máli ein út af fyrir sig til að byggja nýtt hús yfir safnið á krepputímum.

Um listaverkasafnið er það að segja, að landið hefir eignazt mikið af listaverkum, og eru þau flestöll geymd í lokuðum geymsluherbergjum og þannig ekki til sýnis. Er það mikill skaði, m. a. fyrir skólafólk, sem tapar af því gagni, sem það gæti haft af að sjá þetta listasafn landsins, ef það væri opið fyrir almenning. Hér eru mörg hundruð unglingar, sem stunda hér nám, og margir vafalaust mundu nota sér þetta safn, auk þess sem safnið mundi kærkomið öðrum gestum í bænum, og auðvitað heimamönnum bæjarins sjálfum.

Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort þetta húsnæði er heppilegt í þessu skyni. Ég hefi undirstrikað það í grg., að eins og það var álitið heppilegt að gera leikhúsið svo úr garði eins og menn á þessum tíma hafa frekast vit á að gera það, er það jafnframt ljóst, að í næstu 20–30 ár er ekki líklegt, að leikhúsið hafi að gera með nærri allt húsrúmið í eigin þarfir. Leikhúsið er byggt við vöxt og eftir kröfum þeirra, sem mest hafa um málið hugsað og stórhugaðastir eru í þessum efnum, og gengið út frá því, að þar verði nægilegt rúm fyrir allan útbúnað, sem leikhúsið kemur til með að þurfa á að halda, þegar orðinn er starfandi þar stór, fastur leikflokkur. Þarf þá margskonar herbergi til æfinga, mörg búningsherbergi o. fl., ef gert er ráð fyrir því, að við leikhúsið starfi í fjarlægri framtíð jafnvel 20 manna flokkur.

Ég álít, að þótt leikhúsið sé fullgert, sé það hin mesta fjarstæða að ætla sér að tengja við það fastan leikflokk fyrst um sinn. Ég mundi telja rétt, að Leikfélagi Rvíkur yrði lánað húsið og að við það yrði hafður fastur maður, sem væri nokkurskonar leikstjóri. Skoðanamunurinn milli mín og leikhúsnefndarinnar að þessu leyti hefir hinsvegar ekki komið fram enn í þeim skilningi, að reynt hafi á hann, enda verður það ekki fyrr en til þess kemur, að leikhúsið taki til starfa. Eftir að búið er að gera húsið fokhelt, er hægt að taka nokkurn hluta þess með ódýrri viðgerð til notkunar í aðrar þarfir landsins; það, sem afgangs yrði í húsinu, mætti þannig taka til þeirrar notkunar, sem hér er um að ræða. Hefi ég hugsað mér, að sú rannsókn, sem hér er farið fram á að gera með þetta fyrir augum, yrði framkvæmd í samráði við leiðandi menn Leikfélagsins og leikhúsnefndina, og yrði það rannsakað, hvað leikhúsið gæti misst mikið af húsrúmi sínu næstu 20–30 árin sér að meinalausu, og hinsvegar yrði það athugað af fornmenjaverði og öðrum þeim, sem að sofnunum standa, hvernig hægt væri að koma söfnunum fyrir í þessu húsnæði, þangað til landið sæi sér fært að byggja yfir þau sérstaklega. Leikhúsið er fokhelt, eins og ég sagði, og hefir auk þess verið sléttað utan, en hinsvegar hefir ekkert verið gert við það að innan. Hefi ég hugsað mér, að nokkur herbergi í leikhúsbyggingunni yrðu fullgerð í þessu skyni, veggirnir sléttaðir, gólfin dúklögð og sett bráðabirgðamiðstöð og rafljós í þann hluta hússins. Þetta yrðu náttúrlega ekki fullnægjandi salarkynni fyrir söfnin, en þau ættu þó ekki að verða verri en þau, sem söfnin hafa nú, og er þó höfuðröksemdin í þessu máli sú, að með þessu móti væri brunahættan úr sögunni, sem nú vofir yfir söfnunum, sé ég ekki annað en að heppilegt sé að taka leikhúsið til þessarar notkunar, ef það getur orðið án þess að þrengja að Leikfélaginu og draga úr eðlilegri starfsemi þess fyrst um sinn. Er þess að vænta, að ekki þurfi á löngu að líða áður en Leikfélagið getur farið að nota aðalsal hússins fyrir leiksýningar sínar. Verður að gera ráð fyrir, að leiklistin verði borin uppi af sjálfboðaliðum Leikfélagsins enn um stund, og meðan ekki starfar fastur leikflokkur við leikhúsið, er hægt að komast hjá að fullnægja ýmsum þörfum á þessu sviði, sem ella mundu koma til greina.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ástæða muni þykja til að vísa þessu máli til n. þessi rannsókn ætti að geta orðið landinu að kostnaðarlausu, með því að gert er ráð fyrir, að hún verði framkvæmd af mönnum, sem eru í þjónustu ríkisins. Ég vænti þess, að hv. d. geti því fallizt á þessa tilraun til að reyna að leysa úr þeim vandræðum, sem söfnin verða við að búa nú.