17.11.1933
Neðri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (989)

31. mál, virkjun Fljótár

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég bjóst við því í fyrstu, að þetta aukaþing mundi ekki taka önnur mál til meðferðar en stjórnarskármálið og þau mál, sem standa í nánustu sambandi við það. Ég var því talsvert hikandi við að bera fram þetta frv., sem hér liggur fyrir, og það þrátt fyrir það, að ég hafði fengið eindregnar áskoranir um að gera það, frá því bæjarfélagi, sem hlut á að máli. En nú sé ég, að lagafrv. og þáltill. svipaðs efnis og þetta frv. hafa verið borin fram hér á þinginu, og þá sé ég ekki lengur ástæðu til að neita kjósendum mínum um að bera fram þetta frv.

Um efni frv. og rök þau, sem til þess liggja, að það er framborið, læt ég nægja á þessu stigi að vísa til grg. þeirrar, sem frv. fylgir. En ég vona, að hv. þm. sé það ljóst, að hér er um mesta nauðsynjamál að ræða fyrir Siglufjarðarkaupstað. Ég ætla aðeins að benda á, að samkv. þeirri áætlun, sem fyrir liggur — fari svo, að af þessari framkvæmd verði, sem frv. fjallar um —, fær bærinn tíu sinnum meira rafmagn en hann hefir nú, en það rafmagn mundi ekki kosta nema tvöfalt meira en það, sem hann hefir nú. En bærinn hefir hina mestu þörf fyrir aukið rafmagn. Má einnig geta þess í því sambandi, að fyrirtækjum ríkisins sjálfs á Siglufirði er hin mesta nauðsyn að fá aukið og ódýrt rafmagn. Ég vænti þess, að hv. þd. lofi þessu máli að ganga áfram til 2. umr. og vísi því til n., og ég vil þá mælast til við þá n., sem fær það til meðferðar, að ég fái að ræða um það við hana á fundi. Ég tel þá tilhögun réttari heldur en að fjölyrða mjög um þetta mál í hv. d. nú við þessa umr. Að sjálfsögðu getur það komið til greina, að hentugra þyki að gera ýmsar breyt. á þessu frv., og ég get sagt það, ef mér virðast þær breyt. sanngjarnar og réttmætar, að þá mun ekki standa á mér að fallast á þær. Sérstaklega get ég búist við, að viðkomandi aðstöðu Holtshrepps og Skagafjarðarsýslu geti komið einhverjar breyt., og er ég vitanlega fús til samninga um það efni.

Ég ætla, að slíkt mál sem þetta eigi að réttu lagi heima í fjhn., og geri en það að till. minni, að málinu verði vísað þangað að umr. lokinni.