01.10.1934
Sameinað þing: 1. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

Rannsókn kjörbréfa

Rétt er að geta þess viðvíkjandi kjörbréfi þm. S.-Þ., að sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslu hefir ekki sent nein plögg, svo að vitanlegt sé, nema skýrslu til hagstofunnar, og varð kjördeildin að fara eftir henni. Taldi hún það óhætt, þar sem hún var undirrituð af sýslumanni sem oddvita yfirkjörstjórnar.

Viðvíkjandi kjörbréfi 2. þm. Skagf. bárust plögg til þingsins, sem sýna, að við talningu atkv. þar hefir verið vísað til þingsins 4 ágreiningsseðlum. Eins og kunnugt er, þá hlaut Sigfús Jónsson jöfn atkv. á móti Jóni Sigurðssyni, en við hlutkesti kom hans hlutur upp, og var hann því löglega kosinn þm. En innan yfirkjörstjórnar var ágreiningur út af 4 seðlum, þar af voru 2 utankjörfundarseðlar, þar sem kjósendur höfðu ekki skrifað undir fylgibréfin svo sem lög mæla fyrir, en hinsvegar var lögleg undirritun hreppstjóra og tveggja votta, og hafa allir þessir 3 menn vottað bréflega undirskrift sína og að kosningin hafi farið löglega fram, en kjósendur gleymt, þrátt fyrir fyrirfram áminningu hreppstjóra, að skrifa undir yfirlýsingu á fylgibréfinu. Ennfremur var þriðji utankjörfundarseðillinn, þar sem á virðist standa „Steingrímur Sigfús siera“, en yfirkjörstjórn ekki taldi nógu skýran til þess að taka gildan. Loks var fjórði seðillinn — kjörfundarseðill — þar sem ekki þótti fullglöggt, hvern tilætlunin var að kjósa, því að krossinn var settur á strikið milli nafns Sigfúsar Jónssonar og Magnúsar Gíslasonar.

Kjördeildin telur, að þetta hafi ekki getað haft áhrif á kosninguna og álítur rétt, að það sé látið standa, sem úrskurðað hefir verið um þessa kosningu, en leggur til, að þessum ágreiningsatriðum verði vísað til kjörbréfanefndar til athugunar og tillagna og væntanlegs úrskurðar Alþingis.