20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

22. mál, verkamannabústaðir

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég tel, að flest nauðsynleg rök hafi nú þegar komið fram í þessu máli, og hefi ég því ekki miklu við að bæta. En það, sem veldur því, að ég kveð mér hljóðs, er það, að hv. þm. V.-Ísf. sagði, að hver, sem gæti með rökum sýnt sér fram á, að eitthvað væri að till. hans, skyldi fá áheyrn. Ég trúi þessu, því að ég þekki hv. þm. að þeirri sanngirni, að ég held, að hann muni meina það.

Ég vil þá leiða athygli hv. þm. að því, að ekki hafa verið færð að því skynsamleg rök, að hætta geti stafað af því að hafa tvö byggingarfélög í Rvík. Það hefir að vísu verið sýnt fram á það, að hætta geti stafað af því að hafa mörg byggingarfélög í smákaupstöðum, þar sem þau hljóti þá að verða of smá til að geta orðið aðnjótandi beztu kjara. En í Rvík er ekki um þessa hættu að ræða. Ástæðan til að hafa tvö félög er einmitt ósk þeirra, sem við l. eiga að búa. Þessir 350 menn, sem nefndir hafa verið, hafa borið fram ákveðnar óskir um þetta. Það ætti að vega nokkuð í augum hv. þm. Það er ekki hans hlutverk að rannsaka, af hverju þessar óskir eru fram komnar; hann á einungis að athuga, hvort nokkur hætta geti af því stafað að hlýða á þessar óskir.

Hv. þm. V.-Ísf. gerði það að gamni sínu að tala um trúuð hús, pólitísk hús og önnur. Við byggjum nú í rauninni pólitísk hús. Ég er t. d. í félagi, sem byggt hefir eitt slíkt hús. Og ég treysti mér til að útvega hv. þm. íbúð í því húsi. En þau málefni, sem hann ber fyrir brjósti, hafa gert það að verkum, að hann hefir ekki fram að þessu talið rétt að ganga í það byggingarfélag. - Sama er að segja um hv. 2. þm. Reykv. og hans flokk og framsóknarmenn. Þeir eru allir með sín pólitísku hús. En svo mikið leggur hv. þm. upp úr sjálfsforræðinu, að hann hefir ekki viljað vera í neinu þessara byggingafélaga, heldur kosið að vera einn.

Þetta er nú sagt meira til gamans heldur en af því, að það sé alveg hliðstætt.

En það ætti að vera frambærileg ástæða, þegar talað er við þennan hv. þm., að 350 menn óska eftir öðru byggingarfélagi. Ef hv. þm. færir ekki fram rök fyrir því, að hætta geti af þessu stafað, þá vil ég hafa fullnægt þeim skilyrðum, sem hv. þm. setti fyrir því, að hann hlýddi á mig.