20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

22. mál, verkamannabústaðir

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Hv. þm. G.-K. hefir nú reynt að fara vel að mér, til þess að fá mig inn á till. þá, sem fram er borin af minni hl. n. Mér hefði verið kært að geta orðið við ósk hans um að verða við ósk þessara 350 manna, alveg án tillits til þess hvort hún hefði við rök að styðjast eða ekki. En hér er aðeins sá agnúi á, að ef ég ætti að verða við þessari ósk, einungis af því að um ósk er að ræða, þá gæti ég eins orðið við óskum, sem fram kynnu að koma um 3, 4 eða enn fleiri byggingarfélög. Ég mundi með ánægju taka til greina, ef mér væri sýnt fram á með rökum, að einstakir menn væru afskiptir samkv. frv. En þetta hefir ekki verið gert. Og af þeirri ástæðu get ég ekki tekið tillit til þess, þó fram sé borin ósk um að vilja hafa þetta á annan veg. Ef fara ætti að hlaupa eftir öllum slíkum óskum, án þess að rök fylgdu um að annað skipulag væri fjöldanum hagkvæmara, og ef ætti að fara að taka til greina alla duttlunga manna og mismunandi smekk og skoðanir, svo sem að einn vildi byggja í vesturbænum, annar í austurbænum, sumir vildu hafa sérstæð hús, aðrir samstæð, síðan enn aðrir sjálfstæðishús, jafnaðarmanna- eða framsóknarhús, og jafnvel trúuð hús eða vantrúuð, þá óttast ég, að starfsemin mundi snúast upp í pólitískar deilur og flokkadrátt, sem aðeins yrði til að spilla góðu máli, sem við þurfum að komast hjá.