20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

22. mál, verkamannabústaðir

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Svar hv. þm. V.-Ísf. var eins og ég átti von á. Hann viðurkenndi, að æskilegt væri að geta orðið við óskum sem flestra og fann því hvöt hjá sér til þess að taka óskir minni hl. til greina. Telur hann brtt. sínar miða í þá átt. En þær eru alveg gagnslausar, þar sem deildir þær, sem heimilt er að stofna samkv. þeim, eru aðallega háðar stjórn félagsins. Það gætti nokkurs misskilnings hjá hv. þm., þar sem hann sagði, að um leið og ég héldi því fram, að félögin þyrftu að vera tvö, til þess að geta orðið við óskum nokkurra manna, þá væri ég um leið búinn að ganga inn á, að þau mættu eins vera 3-4 eða 5 o. s. frv. Þetta er ekki rétt. Það er ekki gengið út frá, að félögin séu nema tvö, og mín rök fyrir því eru þau, að meðan fél. eru aðeins tvö, eru þau nægilega stór til þess að ná beztu kjörum með innkaup og annað, sem að byggingum lýtur, sem kostur er á. En ef félögunum fjölgar meira og þau minnkuðu, mundi sú aðstaða versna.