20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

22. mál, verkamannabústaðir

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Fyrir mér er þyngdarpunktur þessa máls sá, að lögin hyggjast þarna að grípa inn í fríðindi, sem lög þau, sem nú gilda, veita. Það virðist því geta gefið hættulegt fordæmi að fallast á lög, sem gefa mönnum ástæðu til að búast við, að ýms þau fríðindi, sem lögfest eru, séu óábyggileg. Jarðræktarlögin t. d. ákveða viss fríðindi frá ríkinu til þess, sem verkið framkvæmir. Nú hefir einhver ráðizt í stórfelldar framkvæmdir í trausti þess að verða aðnjótandi þeirra fríðinda, sem lögin heita. En svo kemur allt í einu fram breyt. á lögunum, sem nemur þessi fríðindi úr gildi. Væri þá rétt, að lögin næðu ekki til þeirra, sem hafizt hefðu handa? Við skulum taka t. d. lögin um landnámssjóð. Þau gera ráð fyrir, að þau hús, sem byggð eru á ræktuðu landi, gangi fyrir um lán þeim húsum, sem byggð eru á óræktuðu landi og teljast því til nýbýla. Tilgangur löggjafarinnar er þarna greinilega sá, að ýta undir, að fyrr séu reist hús á ræktuðu landi en óræktuðu. Nú er vel hugsanlegt, að upp kæmi svo sterk nýbýlahreyfing, að lögunum yrði breytt í það horf, að nýbýlin gengju fyrir, jafnvel að stofna ætti heila nýlendu á óræktuðu landi. Nú gæti það verið og er mjög sennilegt, að þessi hreyfing yrði mjög óvinsæl hjá þeim, sem byggja þurfa hús á ræktuðu landi. Einnig má ganga út frá, að á þeim tíma, sem slík breyt. væri gerð, hefðu ýmsir verið meira eða minna byrjaðir á framkvæmd verks, sem þeir hafa treyst á, að nyti fríðinda samkv. þágildandi lögum. Það virðist því eðlilegt og sjálfsagt, að láta þá njóta þeirra hlunninda, sem þeir hafa treyst á, þegar verkið var hafið. Mér finnst nú mikil sanngirni mæla með því, þegar 350 menn hafa stofnað félag á grundvelli eldri laga, að óskir þeirra séu ekki virtar að vettugi. Ef gengið er inn á af hv. Alþingi, að svipta menn þannig rétti, sem þeir hafa eftir lögunum í dag, þá mun oft verða vitnað til þess síðar. Ég verð því að telja þetta mjög óheppilegt fordæmi. Þó hv. sessunautur minn, þm. V.-Ísf., þykist geta á pappírnum bent á leið, sem þessum mönnum sé jafnhentug, nefnil. að ganga í annað félag, býst ég við, að lítið muni verða úr því. Mér er ekki vitanlegt, að ég þekki persónulega neinn af þessum 350 mönnum, sem eru í Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna, og því síður, að ég viti um hugsanir þeirra. En ég geng þess ekki dulinn, að ef beita á við þá þeirri ósanngirni og því gerræði, sem hér er á ferðinni, þá sé mikil hætta á, að margir þeirra hafi ekki skap til að láta þröngva sér í ákveðið félag, en af því leiði ýmsa óánægju og sundrung, sem hafi þær afleiðingar, að margir þeirra manna, sem nú eru í Byggingarfél. sjálfstæðra verkamanna og þannig á að svipta þeim fríðindum sem lögin nú heita og þeir hafa treyst á, verði fríðindanna aldrei aðnjótandi, þessi breyt. á lögunum mun því síður en svo verða til þess að draga úr húsnæðisleysinu. Það mun því vera bezt fyrir hv. þdm. að ganga þess ekki duldir, að með því að fella brtt. hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk., þá er öxin reidd að rótum trjánna á því félagi, sem hér hefir verið rætt um og stofnað er eftir þeim lögum, sem nú gilda, og ekki ólíklegra til starfsemi en það félag, sem hér virðist eiga að vernda. Lagabreytingar, sem koma eins og skúr úr heiðskíru lofti og engan siðferðislegan grundvöll hafa, eiga engan rétt á að fá samþ. meiri hl. Alþingis, sem með því gæfi mjög varhugavert fordæmi. Og þar sem einmitt ein slík lög virðast hér í uppsiglingu, verð ég eindregið að vara hv. þdm. við að samþ. þau.