14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

22. mál, verkamannabústaðir

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég skal fyrst minnast á brtt. mínar á þskj. 430. Hv. frsm. n. hefir nú á þær drepið, og telur hann síðari liðinn, b-liðinn, til bóta og kveðst geta verið honum samþ. Þarf ég því ekki margt að tala um hann. Það, sem fyrir mér vakir, er, að eftirlitsmennirnir athugi ekki einungis fjárreiður félagsins, heldur líka alla starfshætti. Það sýnist svo, að ekki muni síður þörf á að hafa eftirlit með verklegri starfsemi félaganna, og um það mun ekki neinn ágreiningur verða.

Um hinn liðinn er það að segja, að ég álít varhugavert að fara inn á þá braut, að taka traustataki fé einnar sjóðsdeildar til þess að lána annari. Þó að ráðgert sé að lána það aðeins til bráðabirgða og trygging sé sett fyrir láninu, þá veit maður, hvernig það fer í reyndinni, að það fé, sem á að innheimta bráðlega, fæst ekki á tilsettum tíma, og getur það því orðið til baga fyrir þá deild, sem á féð.

Ég get ekki fyrir mitt leyti séð, að það sé nein knýjandi þörf, að gripið sé til innstæðu einnar sjóðdeildar til þess að lána annari. Það ætti ekki að gera ráð fyrir, að byggingar yrðu hafnar hjá neinni sjóðdeild fyrr en fjárhagur hennar leyfir það. Þá er þetta aðeins til þess að leggja óþarfar freistingar fyrir þá, sem sjóðnum eiga að stjórna, til þess að grípa til innstæðna annara deilda. Ég held því, að af praktiskum ástæðum sé heppilegast að fella þetta í burt, og þurfi ekki að gera ráð fyrir, að þetta verði neitt verulega notað, þá þarf heldur ekki að taka fram um það í lögunum.

Þá hafa hv. samnm. mínir borið fram brtt. við 4. gr. frv., þess efnis að fella niður 2. málsgr. hennar, þar sem getið er um, að tvö byggingarfélög í kaupstað, sem hefir yfir 10000 íbúa, geti notið hlunninda þessara laga. Hv. fyrri flm. þessarar brtt. gerði þá grein fyrir henni, að það sé nægilegt að hafa eitt byggingarfélag í hverjum kaupstað, og sagði, að af því mundi leiða meiri starfsemi og minni ágreining. Ég held, að þessi röksemdafærsla sé hæpin. Ég get ekki séð, í hverju það ætti að liggja, að meiri starfsemi yrði innt af hendi, þó að byggingarfélagið væri aðeins eitt, heldur en þó þau væru tvö, þar sem aðstaðan til lántöku er sú sama, og áhuginn ætti sízt að vera minni, þó að tvö félög séu starfandi, sem þá kannske kepptu hvort við annað um að koma upp sem hentugustum og ódýrustum byggingum. Ég get ekki betur séð en að líkur séu einmitt fyrir því, að byggingarstarfsemin yrði betur leyst af hendi með því að hafa tvö félög starfandi heldur en eitt.

Að ágreiningur verði minni, ef félagið er aðeins eitt, held ég, að sé á engum rökum byggt. Ég held, að meiri líkur séu til, að ágreiningur verði innan félags, ef allir, sem þátt vilja taka í slíkum félagsskap, eru neyddir til að vera í einu félagi. Vitanlega geta verið ýms atriði, sem menn greinir á um, einn vill þetta og annar hitt, og þá virðist betra, að það séu tvö félög heldur en eitt, því að til ófriðar stefnir, ef tvær ólíkar stefnur ætla að gera sig gildandi í sama félaginu.

Ég ætla líka, að raunveruleg ástæða til þess, að hv. meðnm. mínir hafa borið fram þessa till., sé ekki sú, að þeir búist við meiri starfsemi eða minni ágreiningi, heldur sé um að ræða viðleitni til þess að koma fyrir kattarnef félagi, sem stofnað hefir verið hér í Reykjavík og hefir ekki fengið náð fyrir augum stjórnarflokkanna. Því hefir verið haldið fram, að þetta frv. sé komið fram til þess að kveða niður þennan félagsskap, sem heitir „Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna“. Um þetta hefir staðið mikil deila í hv. Nd., eins og hv. frsm. drap á.

Ég er sannfærður um, að það er óskynsamlegt af jafnaðarmönnum að vera með löggjöf að reyna að eyðileggja þennan félagsskap. Það bendir til þess, að þeir ætli sér að nota þennan félagsskap til pólitísks framdráttar fyrir sjálfa sig, en það mættu þeir þó sjá, að ekki er heppilegt fyrir starfsemi slíks félags. Það er vafalaust miklu æskilegra, ef menn gera ráð fyrir, að slíkur félagsskapur sem þessi eigi nokkra framtíð fyrir höndum - að hann geti haft einhver áhrif í þá átt að bæta úr húsnæði í kaupstöðunum -, að hafa þá frið um hann og vera ekki að vekja óþarfa flokkadrátt og sundrung út af því.

Ég ætla, að ástæðan til þess, að „Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna“ var stofnað hér í Rvík, hafi verið sú, að ýmsir menn, sem taka vildu þátt í slíkum félagsskap, gátu ekki sætt sig við það byggingarfyrirkomulag, sem ákveðið var í því félagi, er búið var að stofna hér, þar sem byggð hefir verið sambygging, en þessir menn óskuðu heldur að byggja sérstök hús.

Ég hygg, að erfitt muni vera að færa fram frambærileg rök fyrir því, að það geti á nokkurn hátt orðið til skemmda fyrir það málefni, sem hér um ræðir, þó að slíkur félagsskapur fengi að leyfast og koma í framkvæmd einmitt þesskonar byggingum, sem ráðgert hefir verið af honum. Ég hygg, að stjórnarflokkarnir ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir samþ. þessa till. samnm. minna. Með því að eyðileggja framtíðarmöguleika þessa félagsskapar er stofnað til mikillar sundrungar og óánægju um þetta mál. Annars vil ég benda á það, að ef á að samþ. og fylgja þessum 2. lið 4. gr., þá er nálega óhjákvæmilegt að setja eitthvað í staðinn, eitthvað um það, hver örlög skuli verða þeirra félaga, sem nú eru til og rétt hafa samkv. gildandi l. Ég hefi ekki lagt heilann í bleyti til að athuga um það, hvaða úrlausn á þessu máli muni vera heppilegust. Hugsanlegt er, að þau félög gætu komið sem sérstakar deildir í byggingarfélaginu. En þá ætti í öllu falli að standa eitthvað í 1. um þetta. Þetta sjá allir, að er ósanngjarnt, að þau félög, sem samkv. l. njóta nú sérstakra hlunninda, missi þau að ástæðulausu og verði svipt öllum slíkum rétti með lagaboði.

Ég ætla ekki að fara að deila um þetta nú. Ég held, að sumar brtt. séu til bóta. Ég álít heppilegt, að byggingarsjóðirnir séu settir undir sameiginlega stjórn.

Auðvitað er ein aðalbreyt., sem gera á með frv. þessu. Inn í þetta mál hefir blandazt óskylt efni, vegna flokksstreitu, eins og getið hefir verið í umr., sem er að reyna að ráða niðurlögum einstaks byggingarfélags hér í Rvík. Þetta er aðaltilgangur frv.