20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Það var ekki neitt nýtt í ræðu hv. þm. Snæf. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að auðvitað eru þeir fánar, sem blakta við hún þegar hús eru reist, til heiðurs verkamönnunum, sem unnið hafa að því að reisa húsin, en ekki eigendunum. Þess vegna finnst mér, en það kann að vera skoðanamunur um það, að ef þeir menn, sem unnið hafa að byggingu húsanna, óska að hafa einhvern sérstakan fána, þá ráði það mestu. En annars hefir enginn eigandi íbúða komið fram með kvartanir yfir þessu, og hygg ég, að flestum hafi vel líkað. Ég sé ekki, hvernig hv. þm. Snæf. ætlar að koma í veg fyrir þetta, nema þá með því að koma almennu banni á það, að fánar séu dregnir upp við slík tækifæri, nema þá t. d. íslenzki fáninn. Það væri ekki hægt að meina hvaða byggingarfélagi sem væri að draga þá fána við hún, sem það óskaði, nema ákvæði væri um það í l., að flaggað skyldi með einhverjum ákveðnum fána. Ég hygg varla, að hv. þm. fari fram á slíkt, eða þá að það verði sett í l., að 2. þm. Reykv. megi alls ekki vera formaður í byggingarfélagi, því að auðvitað kjósa meðlimir byggingarfélagsins á hverjum tíma þann mann til formanns, sem þeir treysta bezt í það sæti, og án þess að taka tillit til þess, hvort maðurinn er pólitískur eða ekki. Ég fyrir mitt leyti hefi haft mikla ánægju af því að standa fyrir þessum samtökum alþýðunnar um öflun eigin íbúða og sjá þessar miklu byggingar rísa fyrir mátt samtakanna. Ég hefi enga löngun til þess að gera íhaldinu það til geðs að neita nú um aðstoð mína við alþýðu manna í þeim málum, ef félagsmenn óska hennar.