20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

22. mál, verkamannabústaðir

Ásgeir Ásgeirsson:

Hól það um hv. 2. þm. Reykv., sem hv. þm. Snæf. segir að ég hafi verið með hér, var ekkert annað en skýrsla um það, hvernig þetta mál hefir gengið undanfarið, svo að ef þessar staðreyndir hafa verið honum til lofs, þá á hann það fullkomlega skilið. Ég játa það, að ég myndi leyfa verkamönnum, sem vilja draga rauðan fána á stöng, þar sem þeir búa, að ráða því sjálfum. Aftur á móti skilst mér það á hv. þm. Snæf., að hann sé svo flokkslega hlutlaus, að hann vildi banna slíkt. Ég get ekki skilið ummæli hans um þetta efni öðruvísi. Það er rangt, sem hv. þm. sagði, að allir verkamenn, sem eru í Byggingarfélagi verkamanna í Rvík, séu skyldaðir til þess að hafa hús sín með einhverju ákveðnu sniði, sem hv. 2. þm. Reykv. þóknast að vera láta. Það er fjarstæða, að svo sé. Þetta er aðeins slagorð, að jafnaðarmenn vilji skilyrðislaust hafa sambyggingar fyrir alla, en svo séu það aðrir, sem séu sjálfstæðismenn, sem vilji hafa sjálfstæð hús og sjálfstæð byggingarfélög. Menn þurfa ekki annað en að kynna sér tilhögun þessara mála hjá nágrannaþjóðum vorum, til þess að vita það, að í slíkum byggingarfélögum sem þessum eru allar aðferðir um gerð húsanna notaðar. Og þar eru sannarlega til sjálfstæð hús. Ég hefi komið inn í hús jafnaðarmannaforingja erlendis, sem byggt var fyrir ríkis- og bæjarstyrk, sem var rétt eins sjálfstætt eins og sjálfstæðismaður hefði átt það. Sú ein regla gildir í þessu efni í svona félögum, að fara á allan hátt eftir óskum félagsmanna um það, hvernig þeir vilja byggja, svo sem hægt er, svo að það auki ekki kostnað umfram það, sem slíkar íbúðir mega kosta.

Mínar ástæður eru alveg hreinar og klárar og ekkert yfirklór á nokkurn hátt. Ég hefi þótzt sjá það, að hér hefir verið á ferðinni í seinni tíð einhver hreyfing um það, að skipta þessum félögum, og það í smæstu kaupstöðum. Það þarf ekki lengra að fara enn til Hafnarfjarðar, til þess að fá dæmi um þetta. Þar voru stofnuð 2 byggingarfélög, sem ekki gátu starfað saman, með því að annað félagið neitaði samstarfi við hitt. Það er það minnsta, sem hægt er að heimta, að allir flokkar geti verið í einu og sama byggingarfélagi, a. m. k. á meðan menn segja sig ekki úr l. hverjir við aðra. Ég hefi þess vegna enga samvizku út af því að fylgja því fram, að allir flokkar skuli vera í sama byggingarfélagi.