20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

22. mál, verkamannabústaðir

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Húnv. gáir ekki að því, að hér er ekki um venjulegan samvinnufélagsskap að ræða. Hér er að vísu um samvinnu að ræða milli þeirra, sem þurfa að byggja, en starf félaganna er að svo miklu leyti unnið fyrir ríkis- og bæjarstyrk, að ekki er hægt að líkja þeim við venjuleg samvinnufélög, sem hvergi þiggja styrk. Ég vil benda hv. þm. á það, að ýmiskonar erfiðleikar eru á því, að hafa tvö félög á sama stað, sem bæði ættu að njóta sömu lánsmöguleika, og fleira þessháttar. Hætt er við, að árekstur yrði milli þessara félaga, þegar til kæmi úthlutun lána og lóða, og hvorugt væri nægilegt fyrir bæði félögin. Og er tvö félög færu að keppa um þessi fríðindi, og aðeins annað gæti fengið þau, er mikil hætta á, að úthlutun þeirra færi eftir pólitík. Ein bæjarstj. fylgir þessu flokksfélagi að málum, önnur hinu, og þá sömuleiðis landstj. Af þessum ástæðum er það m. a. betra, að á sama stað sé ekki nema eitt félag. Hv. þm. óttast, að ein afleiðing af þessum ráðstöfunum kunni að verða sú, að Kaupfélagi Eyfirðinga verði skipað að ganga inn í Kaupfélag verkamanna á Akureyri. Ég er nú ekki eins hræddur við það, og yrði á móti því á sínum tíma. Mér skildist, að hv. þm. teldi það vel farið, að fleiri en eitt samvinnufélag væri í sömu sveit, en þar get ég ekki verið honum sammála. Og þó að ég telji ekki rétt, að það sé bannað með l., tel ég það samt bezt, ef ekki er nema eitt kaupfélag í hverri sveit; ég teldi það mjög illa farið, ef yfirleitt yrðu stofnuð í hverju héraði kaupfélag sjálfstæðismanna, kaupfélag framsóknarmanna og kaupfélag jafnaðarmanna. Hér í bæ eru tvö kaupfélög, og í þau skiptast menn eftir flokkum. Þetta er til viðvörunar, en ekki til fyrirmyndar; það hefir þróunin annarsstaðar sýnt. Við skulum bera saman Finnland, þar sem pólitísk skipting er í kaupfélagasamböndunum, og t. d. Svíþjóð, þar sem pólitísk flokkaskipting hefir aldrei komizt inn í kaupfélögin, - enda gengur þar allt tvímælalaust betur. T. d. er aðeins eitt kaupfélag í svo stórri borg sem Stockholm er, og eru menn af öllum pólitískum skoðunum í því. (TT: Eru engar aðrar verzlanir í Stockholm?). Jú, þar eru margar sjálfstæðar verzlanir. (JakM: Er bannað að hafa fleiri en eitt kaupfélag?). Nei, en þetta hefir orðið svona, af því að íbúar borgarinnar eru svo þroskaðir, að þeir kljúfa ekki verzlunarsamtök sín vegna skoðanamismunar í stjórnmálum. En hér er tilhneigingin sú, að kljúfa hvert félag niður í smádeildir, svo sterk, að ekkert þrífst hér óklofið. En hér er nú fyrir mitt tilstilli komin inn í l. heimild, sem ætti að nægja til þess að fullnægja þessari þörf í byggingarfélögum verkamanna.