20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

22. mál, verkamannabústaðir

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Ísf. var að reyna að sýna fram á það í ræðu sinni, að þjóðarnauðsyn væri að útbúa l. um verkamannabústaði svo, að þau ýttu ekki undir stofnun nema eins byggingarfélags. Ég vil benda á það, að með þessu er hv. þm. V.-Ísf. að færa málið yfir á annað svið en það liggur fyrir í raun og veru. Hér er um það að ræða, hvort þessi hv. d. vill standa við fyrri meðferð sína á þessu máli, áður en það fór til Ed., sem sé að gera þeim tveim félögum, sem þegar eru starfandi í Rvík, jafn hátt undir höfði. Annað liggur ekki fyrir. Enginn kaupstaður annar en Rvík er nokkuð nálægt því að hafa 10000 íbúa eða fleiri. Hér er í raun og veru um það eitt að ræða, hvort Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna í Rvík á að fá að hafa gagn af l. um verkamannabústaði. - Það er sjálfsagt rétt hjá hv. þm. V.-Ísf., að hv. 2. þm. Reykv. hafi gengið mjög fram í þessu máli. Ég vil á engan hátt gera lítið úr dugnaði þessa hv. þm. En ég vil benda á það, að mestur hluti þessa dugnaðar hefir farið í að knýja út fé úr ríkissjóði fyrir þann hóp manna, sem hann hefir tekið að sér að slást fyrir. En þar með er ekki sagt, að þessi hópur eigi að hafa einkarétt á því um ófyrirsjáanlegt árabil að njóta góðs af þessum l. - Það er rétt, sem hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. V.-Húnv. sögðu, að með því athæfi Alþ., að ætla að eyðileggja félagsskap 350 verkamanna í Rvík, er verið að ráðast á félagsfrelsið í landinu. - Hv. þm. V.-Ísf. sagðist unna verkamönnum þess, að draga hvaða fána við hún sem þeir vildu. En hann vill ekki unna verkamönnum frelsis til þess að vera í hvaða félagi sem þeir óska. Og hann ætlar að vera með því að koma í veg fyrir, að Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna fái nokkur hlunnindi samkv. l. um verkamannabústaði. Þetta er undarleg mynd af því lýðræði, sem hv. þm. V.-Ísf. telur sig fylgja.

Hvers vegna eru þessir 350 verkamenn að ganga í sérstakan félagsskap um byggingar? M. a. vegna þess, sem bent hefir verið á, að félag það, sem hv. 2. þm. Reykv. veitir forstöðu, hefir eingöngu byggt sambyggingar. Ennfremur hefir verið upplýst, að Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna ætlar sér að byggja einstök hús aðallega. Og mér finnst það mjög óviðeigandi að vera að gera grín að þessum mismunandi óskum manna. Og það, að menn séu að segja í sundur l. með sér, þó að tvö byggingarfélög séu hér í Rvík, er auðvitað fjarstæða. Hitt væri nær að segja, að það stefndi í þá átt, að menn segðu í sundur með sér lögum, ef haldið verður áfram að mismuna mönnum svo sem gert er í þessu frv. Eins og margoft hefir verið tekið fram, er sú meðferð á þeim 350 verkamönnum, sem eru í Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna, sem viðhafa á, ef frv. þetta verður að l., alveg óþolandi. Það á að svipta þá þeim hlunnindum, sem þeim ber að l., aðeins af því, að þeir vilja ekki ganga í félag hv. 2. þm. Reykv. Ég vil spá því, að meðferð þessa máls, að málafærslu hv. þm. V.-Ísf. ekki undanskilinni, verði talin sögulegur atburður síðar meir. Því svo ákveðið er farið hér inn á þá braut að kúga skoðana- og félagsfrelsi þegnanna. Við 2. og 3. umr. þessa máls hér í d. var mikið um það rætt, hvort félagsskapur sá, sem hv. 2. þm. Reykv. veitir forstöðu, væri ópólitískur eða ekki. Og þótt merkilegt sé, er hv. þm. V.-Ísf. enn að telja mönnum trú um, að svo sé.

En ég vildi minnast á það, sem skeð hefir milli þátta í þessum harmleik, - því að það er harmleikur, þegar á að traðka á réttindum fleiri hundruð þegna. En milli þátta hefir það skeð, að hv. 2. þm. Reykv. hefir dregið við hún 50 rauða fána á þeim byggingum, sem félag hans er að láta reisa. Ég tel víst, að verkamenn hafi ekki haft neinar sérstakar óskir í þessu efni, heldur hafi hv. þm. viljað ögra þeim, sem á Alþ. hafa barizt fyrir jafnrétti þegnanna í þessu efni, og jafnframt draga dár að þeim, sem reynt hafa að telja fólki trú um, að þetta væri ópólitískur félagsskapur. Hv. 2. þm. Reykv. gat ekki á annan hátt auglýst það betur, hver andi svífur yfir vötnunum þar sem hann ræður. Og fyrir augum allra Rvíkurbúa auglýsir hann sitt flokkslega yfirlæti með því að flagga ekki með þjóðarfánanum við hátíðleg tækifæri, heldur flokksfána sínum. Það er jafnan misviturra manna háttur, þá er þeir þykjast hafa völdin, að ögra þeim, sem minnimáttar eru; það er ekkert nýtt í veraldarsögunni. En hitt á sér líka fordæmi, að þessum herrum verður ekki valdsins auðið langa stund. Og ekki þætti mér ótrúlegt, að hv. 2. þm. Reykv. og þeir framsóknarmenn, sem gerzt hafa vikapiltar hans í þessu máli, fái sín makleg málagjöld áður en yfir lýkur.