20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

22. mál, verkamannabústaðir

Sigurður Einarsson:

Hv. þm. A.-Húnv. og fleiri hv. þdm. hafa látið orð falla á þá leið, að færu l. út úr d. nú án þess að brtt. hv. þm. Snæf. verði samþ., sé þar með stefnt að því að útrýma félagsfrelsi úr landinu. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að til eru tegundir frelsis, sem eru mönnum sáralítils virði. Og svo geta aftur vissar tegundir ófrelsis, eða takmarkaðs frelsis, verið mönnum harla mikils virði. Allir hafa hér frelsi til þess að gera út togara, koma sér upp húsum og vera í hverskonar arðvænlegum félagsskap, sem þeir vilja, en þetta frelsi er bara fyrir allan fjöldann innantóm orð og ekkert meira. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefir það verið viðurkennd trú, að hver drengur, sem fæddist í bjálkakofum öreiganna, gæti orðið Bandaríkjaforseti. Og svona er það víðar. Og þessarar tegundar er frelsið, sem talað hefir verið um, að sé skert með þessum l. Þeim er ætlað að hjálpa verkamönnum, sem annars hefðu ekki getað það, þrátt fyrir frelsi sitt til þess, að koma sér upp húsum. Og innan byggingarfélaganna ríkir fullkomið frelsi, nú er meira að segja komið ákvæði inn í frv., sem heimilar stofnun smádeilda innan aðalfélagsskaparins. Það hefir verið upplýst, að féð, sem aflað verður í þessu skyni, er ekki meira en svo, að með hjálp þess geti eitt félag haldið uppi myndarlegri starfsemi. Og þegar það er athugað, að öllum er heimilt að vera í þessu félagi, eru allar bollaleggingar um frelsisafnám í sambandi við vilja til þess að hafa félagið aðeins eitt fallnar úr sögunni. - Ég mun ekki blanda mér í þá deilu, sem hefir risið af því hér í d., að í reisugildi verkamannabústaðanna var flaggað með rauðum fánum eingöngu. Það getur verið að það sé vegna þess, að mér séu þessi fánamál ekki eins viðkvæm og sumum öðrum. En út af því, sem hv. þm. Vestm. sagði eða vildi geta í skyn, að verkamönnum stæði á sama, hvaða fána þeir notuðu, get ég sagt honum það, að verkamenn unna sínum rauða fána, þeir skoða hann sem tákn baráttu sinnar og þeir kjósa, að hann sé dreginn að hún við hver áfangaskipti þeirrar baráttu, sem háð er fyrir bættum lífskjörum þeirra. Það er hið mesta gáleysi að gera sér í hugarlund, að þeir lúti aðeins valdboði eins manns við notkun þessa rauða fána.

Ég vil svo að lokum undirstrika það, að það er ekki til neins að vera að halda því fram, að hér sé verið að útrýma félagsfrelsi, og að ótal tegundir af svokölluðu frelsi eru ekki annað en innantóm orð, sem enga stoð eiga í veruleikanum.