09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

26. mál, vinnumiðlun

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hér er ekki um neitt stórmál að ræða eða þýðingarmikið. Frv. er sniðið eftir útlendum fyrirmyndum; þar sem allt hagar til öðruvísi en hér, þar sem mannfjöldinn er svo mikill, að menn þekkja ekki hver annan.

Aðalatvinnan, sem framkvæmd er í kaupstöðum hér af hálfu hins opinbera, er hin svo nefnda atvinnubótavinna, og mun sú aðferð víðast viðhöfð, að þeirri vinnu miðla bæjarfélögin sjálf með aðstoð fátækrafulltrúanna, og mun að jafnaði reynt að stilla svo til, að þeir njóti vinnunnar, sem mesta hafa þörfina fyrir hana. Ég fæ því ekki séð, að það sé til bóta fyrir bæjarfélögin eða mennina sjálfa, sem vinnunnar eiga að njóta, að sett verði upp sérstök skrifstofa til þess að annast úthlutun þessarar vinnu. Í sumum bæjarfélögum annast bæjarfulltrúarnir þetta sjálfir, án sérstakra útgjalda. Það hefir verið svo að segja á hverju þingi, að komið hafa till. um einhverja skipulagningu, sem bæjarfélögin eiga að kosta. Ég held því, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að stofna til fleira af slíku tægi, þegar ekki verður sýnt fram á, að það sé neinum til hagsbóta, því að það geta allir verið sammála um, að þetta skapar enga vinnu. Það hefir verið svo, að vinnuveitendur hafa sjálfir samið við það fólk, sem vinnur hjá þeim, og það fer bezt á því fyrir báða aðilja. Hér eru ekki svo stórir bæir, að það geti komið fyrir eins og í stórborgum, að vinnuveitandi þurfi að hringja á skrifstofuna og biðja um þennan fjölda verkamanna þennan dag. Hér er vinnumiðlunin samningsatriði verkamanna og vinnuveitenda á hverjum stað, en að því er snertir opinbera vinnu, þá er það eins og ég hefi lýst, að bæjarstjórnir annast það, og þær vita bezt, hverjir eiga að njóta hennar. Svo er það, að bæirnir hafa sannarlega nóg á sinni könnu af því, sem óumflýjanlegt er, og þar sem hér virðist vera farið fram á, að stofna til kostnaðar að óþörfu, þá vil ég vara við að samþ. þetta frv.

Þá vil ég benda á það, að með þessu frv. á að veita atvmrh. heimild til að setja slíka skrifstofu á stofn, kostaða að 2/3 hlutum af bæjarfélaginu, jafnvel þótt bæjarfélögin óski ekki eftir því. Það sýndist varla mega vera minna en farið yrði eftir því, hvort bæjarfélögin vildu slíkt eða ekki.

Ég hygg, að bæði hæstv. atvmrh. og aðrir geti fallizt á það, að þetta muni ekki auka atvinnu í bæjunum, og ég býst við, að flestir geti einnig verið sammála um það, að í bæjarfélögum hér á landi er ekki svo mikið djúp staðfest á milli atvinnurekenda og verkamanna, að sérstaka stofnun þurfi til að miðla vinnu á milli þeirra. Ef Rvík er orðin svo stór, að slíkan millilið þurfi, þá sýnist, að úr þeirri þörf sé bætt með þeirri ráðningarskrifstofu, sem hér hefir verið sett á stofn. Að vísu er gert ráð fyrir, að vinnumiðlunarskrifstofan hafi fleira, t. d. atvinnuleysisskráningu, en það sýnist ekki þurfa nýja stofnun til þess að annast það, því að það hefir farið fram í bæjum lýtalaust með þeim aðiljum, sem þar að standa, bæjarstjórnum og verklýðsfélögum.