09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

26. mál, vinnumiðlun

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hæstv. ráðh. gat þess, að í fjárlagafrv. væri ætlað mikið fé til atvinnubóta. Er ekki nema gott við því að segja svo lengi sem hægt er að standa undir slíkum gjöldum. Hann sagði, að það væri engin furða, þó að stj. vildi hafa eftirlit með því, hvernig þessu fé væri varið. Mér þykir ekki óeðlilegt að heyra þetta af munni hæstv. ráðh., en ég vil benda honum á, að frv., þó það verði samþ., veitir enga tryggingu fyrir því, hvernig þessu fé er varið. Það er alls ekki gert ráð fyrir, að þessi skrifstofa skipti sér neitt af því. Hennar einasta hlutverk er vinnumiðlunin sjálf, hverjir fá vinnu og hvað lengi o. s. frv. Nú vilja einstaklingar, sem vinnu þurfa að kaupa, ráða því, sem von er til, hverjir vinna hjá þeim, svo að það verður þá eingöngu opinber vinna, sem þessi skrifstofa fær til að skipta sér af, og meðan stj. getur ekki bent á nein dæmi þess, að bæjarstjórnin hafi beitt ranglega valdi sínu til að úthluta bæjarvinnunni, verð ég að álíta þessa lagasetningu óþarfa. Þeir, sem hafa bæjar- og sveitastjórnarmál með höndum, hafa venjulega allt of lítinn tíma til að sinna þeim störfum, en þetta starf, að skipta vinnunni niður milli þeirra, sem hennar þurfa helzt með, hefir að minni hyggju verið rækt með mestu gaumgæfni. Það hefir t. d. verið svo í Vestmannaeyjum, að þegar slík vinna hefir byrjað, þá hafa nefndirnar, sem þessi mál hafa haft með höndum, komið saman í hverri viku til þess að íhuga, hverjir skuli fá þessa vinnu, og þó að bólað hafi á óánægju út af því, að atvinna væri ekki svo mikil sem æskilegt væri, þá hefir þessum nefndum þó aldrei verið borið það á brýn, að þær væru hlutdrægar í þessum efnum. Hvers vegna á þá að skylda þessi fátæku og margsliguðu bæjarfélög til að halda uppi skrifstofu til að miðla þessari vinnu, sem bæjarbúar hafa reitt sig inn að skyrtunni til að halda uppi. Það er full ástæða til að reyna að firra bæjarfélög slíkum óþarfakostnaði, en reyna að nota það fé, sem fyrir hendi er, þannig, að það verði sem flestum að gagni, en þetta frv. gerir ekkert í þá átt, þó að það yrði að l. Þessi skrifstofa verður ekkert nema svolítið sníkjudýr á bæjarsjóðunum til viðbótar við aðrar byrðar, sem löggjöfin vill nú leggja á örpínd bæjar- og sveitarfélög.