10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

26. mál, vinnumiðlun

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil taka það fram, áður en þessari umræðu lýkur, að ég mun ekki treysta mér til að greiða frv. þessu atkv. mitt til 2. umr.

Ég skal að vísu játa, að það er oftast sjálfsögð kurteisisskylda við stjórnina, að hleypa frv. hennar til 2. umr., og gera þannig kost á, að þau verði athuguð í n. En hér stendur alveg sérstaklega á, svo að í þetta skipti er undantekning frá reglunni fyllilega réttmæt. Frv. þetta er sem sé borið fram af þeirri ástæðu einni, að Rvíkurbær hefir þegar komið á fót vinnumiðlunarskrifstofu.

Sú hreyfing, að draga menn í dilka eftir pólitískum flokkum og láta menn gjalda eða njóta stjórnmálaskoðana sinna, þegar um vinnu er að ræða, er fyrir löngu hafin hér á landi. Rauðliðar hafa, síðan þeim tók að vaxa fiskur um hrygg, haldið því fram í orði og verki, að þeir einir ættu að fá vinnu, sem fylgja þeim í stjórnmálum, og reynt að kúga alla aðra til fylgis og undirgefni við sig með því að svelta þá. Þessari aðferð hafa þeir beitt í verkalýðsfélögunum, og nú er tilætlunin að stíga það spor með þessu frv., að ná einnig öllum yfirráðum yfir þeirri vinnu, sem ríki og bæir veita og vitanlega á að veitast án nokkurs tillits til stjórnmálaskoðana, eins og raunar öll vinna. Ég veit, að frv. er komið fram í þessum tilgangi einum, og mun því ekki ljá því fylgi mitt, ekki einu sinni til 2. umr.

Hinsvegar er ég manna fúsastur til að viðurkenna, að þörf sé á að gera allt, sem unnt er, til að hjálpa hinum atvinnulausu mönnum í bæjunum, enda hefir mikið verið gert til þess. En utan Rvíkur er það hverjum bæ alveg ofviða, að fara að setja upp dýrt stjórnarskrifstofubákn til að annast þessi mál. Hingað til hefir það verið venja, að einhver úr bæjarstjórninni hafi haft þessi mál með höndum fyrir litla eða enga aukaborgun. Atvinnubótaféð hefir því getað gengið óskert til atvinnuleysingjanna sjálfra, eins og til hefir verið ætlazt. En þetta frv. stefnir að öðrum atvinnubótum, atvinnubótum fyrir snýkjudýr rauðu flokkanna á kostnað þurfandi manna.

Það er bersýnilegt, eins og ég hefi þegar tekið fram, að tilgangur frv. er enginn annar en sá, að úthlutun atvinnubótafjárins eigi að miðast við stjórnmálaskoðanir manna, en slíkt stefnir auðvitað til hins hróplegasta ranglætis, í fyrsta lagi af því, að þetta fé er tekið af skattborgurum úr öllum stjórnmálaflokkum, og í öðru lagi vegna þess, að atvinnubótavinnu á að miða við þörf manna, en ekki pólitískan litarhátt.