10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

26. mál, vinnumiðlun

Héðinn Valdimarsson:

Hv. 8. landsk. var að bera það saman, að meiri hl. bæjarstjórnar Rvíkur hefði skipað formann landsmálafél. Varðar sem formann vinnumiðlunarskrifstofunnar hér, og svo, að ég væri formaður Dagsbrúnar, þar sem þar væru menn af öllum flokkum. Þar er mjög ólíku saman jafnað, vegna þess að Gunnar E. Benediktsson er ekki kosinn af þeim mönnum, sem málinu heyra til, heldur af meiri hl. bæjarstjórnar. Aftur á móti er ég kosinn formaður Dagsbrúnar af verkamönnunum sjálfum.

Það er engum þægð í vinnumiðlun öðrum en þeim, sem vinnuna þurfa, verkamönnum og sjómönnum. Þess vegna finnst mér réttast, að skrifstofan sé rekin af þeim sjálfum, og að þeir úthluti vinnunni sjálfir og kjósi sjálfir mann, sem hafi umsjón með þessum málum. Ef bærinn fær verkið unnið og verkamennirnir eru ánægðir, þá mega aðrir vera það líka, og bæjarstjórninni kemur þetta eiginlega ekkert við.

Ég get hinsvegar sætt mig við, að þessu sé svo hagað, að fleiri aðilar fái að ráða, en í raun og veru er ekki hægt að neita því, að það eru verkamennirnir, sem eiga að stjórna þessu. Ég get vel skilið, að hv. 3. þm. Reykv. snúist svona í þessu máli. Hann er kunnur af að hafa reynt að beita þeirri mestu rangsleitni, sem hér hefir þekkzt, sem sé við verkamenn 9. nóv. 1932, og þar á ofan hefir hann sýnt meiri heigulskap en nokkur annar Íslendingur hefir nokkru sinni sýnt.