23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

26. mál, vinnumiðlun

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég sé ekki ástæðu til þess að blanda mér inn í þessar umr. að öðru leyti en því, sem hv. 8. landsk. vék að mér.

Ég hefi lýst því áður, hvernig afstaða verklýðsfélaganna hér í Rvík hefði verið til vinnumiðlunar yfirleitt, en þetta frv. er ekki það, sem alþýðusamtökin hér mundu óska að lögfesta, því það er skoðun mín og flestra í alþýðusamtökunum, að verkamenn eigi sjálfir að ráða sinni vinnumiðlun. Nú horfir þetta mál þannig við, að hinn harðvítugi meiri hl. bæjarstj., sem er andvígur alþýðunni í bænum og hefir svo að segja ekkert fylgi meðal hennar, vill einoka þessa ráðningarskrifstofu undir sig, í hvaða tilgangi það er, getur maður ekki beinlínis sagt, en það er hægt að geta sér til þess, sérstaklega þegar maður athugar þær aðferðir íhaldsins í þessu máli, að neita um íhlutun verkamannafélaganna. Og fulltrúarnir í bæjarstj. hafa sett á stofn ráðningarskrifstofu undir stj. eins harðvítugasta andstæðings alþýðusamtakanna hér í bænum. Það ráð, sem alþýðusamtökin tóku á móti þessu, var að setja á stofn aðra ráðningarskrifstofu. En það er víst, að ef ekki fæst löggjöf um þetta atriði, þá endar það með bardaga milli þessara tveggja ráðningarskrifstofa. Nú hefir stj. álitið, að rétt væri að setja löggjöf um þetta þannig, að atvinnurekendur og verkamenn standi að þessari vinnumiðlunarskrifstofu, en oddamaður sé skipaður af stj. Á þetta höfum við fallizt, alþýðuflokksmenn, þrátt fyrir það, að í raun og veru álítum við, að alþýðusamtökin eigi óskorinn rétt á þessum málum.

8. landsk. talaði mikið um einræði í þessum efnum. (GÞ: Í þingsköpunum er svo fyrir mælt, að þm. skuli kalla hver aðra háttvirta). Ég kalla ekki aðra þm. háttvirta en þá, sem ég álít vera það. - Ég skil ekki, hvað þessi þm. er að tala um einræði. Hann veit það, að Sjálfstfl. er í minni hl. hjá þjóðinni og hér á þ., og þess vegna er það ekki nema lýðræði, að hann láti undan í þeim málum, þar sem hann er í minni hl. En það væri gott að fá einhverja skýringu á þeim hótunum, sem hann og fleiri þm. hafa verið með í þessu sambandi. 8. landsk. hótar því, að ef l. verði samþ. um þessi efni, þá skuli verða mikil sprenging hér í bænum, en á hvaða hátt kom ekki fram í ræðu hans, en hann getur skýrt það betur seinna. 8. landsk. var eitthvað að tala um olíu. Ég ætla að vona, að hann fari ekki að kveikja í neinni olíu, heldur hafi hann hugsað sér upphlaup af hálfu sjálfstæðismanna. Ef slíkt er fyrirhugað, þá er ekki um annað að gera en taka því, og þá munu alþýðusamtökin búa sig undir það.

8. landsk. vék oftar en einu sinni að olíu áminntur af fyrrv. eftirlitsleysismanni sparisjóðanna. Ég vil í því sambandi segja 8. landsk. það, að ég vildi óska að þær fjárgróðaaðferðir, sem hann hefir fengizt mest við, séu ekki óheiðarlegri en það starf, sem ég hefi með höndum.