23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

26. mál, vinnumiðlun

Guðbrandur Ísberg:

Það mætti kannske segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að fjölyrða mikið meira um þetta mál en þegar hefir verið gert, en ég vil þó ekki, að málið fari svo út úr d., að ég ekki segi mitt álit um það. Ég skal þá strax taka það fram, að ég er samþykkur áliti minni hl. þeirrar n., sem hefir haft þetta frv. til meðferðar. Ég álít, að að svo komnu sé óþarfi að skipa þessum málum með l.

Vinnumiðlun hefir þekkzt hér áður, þó það sé nýlega, sem regluleg vinnumiðlunarskrifstofa hefir verið sett á stofn í Rvík. Það hefir verið gerð tilraun um þetta áður, en þær tilraunir hafa misheppnazt af þeirri einföldu ástæðu, að þeir, sem gagn áttu að hafa af þessum skrifstofum, verkamenn og atvinnurekendur, gengu fram hjá þeim, svo þær lognuðust út af. Það hefir verið bent á það í umr., að á Siglufirði hafi verið sett á stofn vinnumiðlunarskrifstofa, sem hafi starfað þar með góðum árangri. Sú vinnumiðlunarskrifstofa hefir verið sett þar á stofn af því að menn fundu þörfina. Það mun fara svo, að í þeim kaupstöðum, sem þörf hafa fyrir vinnumiðlunarskrifstofu, verða þær stofnanir án frumkvæðis löggjafarinnar. Mér er á móti skapi, að sett séu l. um málefni, sem ég tel óþarft að skipa með l. Þar með er ekki sagt, að ég telji hættulegt að setja l. um þetta efni, og ég gæti til samkomulagt fallizt á að samþ. frv. líkt og það, sem hér liggur fyrir, með nokkrum breyt. T. d. gæti ég vel samþ. 1. gr. frv. um leið og fellt væri aftan af henni eins og lagt er til í brtt. á þskj. 87. Þar segir: „Í hverjum kaupstað landsins skal stofnuð vinnumiðlunarskrifstofa, ef bæjarstj. hlutaðeigandi kaupstaðar ákveður“, o. s. frv. Þetta er gott og blessað. En hinu er ég mótfallinn, að atvmrh. geti á sitt eindæmi fyrirskipað, að slík skrifstofa skuli sett á stofn, gegn vilja viðkomandi bæjarstj.

Hvað snertir ákvæði 2. gr., þá má telja þau sem leiðbeiningar fyrir þessar stofnanir, hvernig þær skuli haga starfi sínu, er til kemur. Að því miða líka ákvæði brtt. á þskj. 65, þar sem gert er ráð fyrir, að gefin verði út reglugerð um starfsvið þeirra. - 3. gr. frv. fjallar um það efni, sem mestum deilum hafa valdið hér, nefnilega stj. skrifstofanna. Ég skal strax lýsa því yfir, að ég mun greiða atkv. með brtt. hv. þm. N.-Ísf. á þskj. 65. Sú skipun, sem þar er lagt til, að höfð verði á stj. skrifstofanna, er áreiðanlega sú sanngjarnasta, sem stungið hefir verið upp á. Þar er gert ráð fyrir, að formaður skrifstofustjórnarinnar á hverjum stað sé skipaður af atvmrh. eftir till. viðkomandi bæjarstj., og þýðir það náttúrlega, að sá meiri hl., sem ræður í hverju tilfelli, tilnefnir þann mann, sem verður oddamaður í stj. skrifstofunnar. Í Rvík yrðu það nú sem stendur sjálfstæðismenn, en í Hafnarfirði aftur á móti jafnaðarmenn. Þetta er sanngjarnt fyrirkomulag, og ég skil ekki í þeim mönnum, sem lagt hafa á móti því.

Eins og hv. þm. V.-Ísf. sérstaklega benti á, er ákaflega nauðsynlegt, að það sé sem mestur friður og eining um þessar skrifstofur, bæði frá hálfu vinnuveitenda, sem vantar vinnukraft, og verkamanna, sem þurfa atvinnunnar með. Það er eðlilegt, að sósíalistar geri kröfur um það, að verkamenn hafi hér talsvert ríka íhlutun, en það er jafneðlilegt, að atvinnurekendur vilji hafa það líka. Ef annar aðilinn er útilokaður, er þar með kippt burtu grundvellinum fyrir því, að um gott samstarf geti verið að ræða, og um leið grundvellinum fyrir því, að gagn geti orðið að stofnuninni. Að útiloka annan aðilann frá stj. skrifstofunnar væri sama og að byrja nauðsynlegt samstarf með því að ganga að starfsbróður sínum og gefa honum utanundir. Slíkt gerir enginn hygginn maður, og ég held, að sósíalistum geti varla verið það alvara, ef þeir hugsa hugsunina til enda, að vilja stofna til algerðs klofnings í þessu máli. Það mundi leiða til þess, að tvær ráðningarskrifstofur yrðu í hverjum bæ, önnur sett upp af atvinnurekendum, hin af verkamönnum. Þetta mundi eyðileggja það starf, sem þessum stofnunum er ætlað að inna af höndum.

Ég vil sérstaklega taka það fram, að eins og högum er nú háttað, tel ég þetta frv. óþarft, en tel þó ekki frágangssök að samþ. það til samkomulags, ef gerðar eru á því þær breyt., sem ég og fleiri hafa bent á, að væru nauðsynlegar. Fyrst og fremst, að 2. brtt. á þskj. 65 frá hv. þm. V.-Ísf., um skipun stj. skrifstofanna, sé samþ., og í öðru lagi brtt. á þskj. 87, um að það ákvæði falli niður, að atvmrh. geti, ef honum þóknast, sett á stofn vinnumiðlunarskrifstofu, jafnvel gegn vilja viðkomandi bæjarstj.