23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Hvað snertir ræðu hv. þm. V.-Ísf. get ég að mörgu leyti verið honum sammála. En hinsvegar endurtek ég það, að mér skilst, að hægt sé að ná tilgangi frv. með því, að bæirnir setji sjálfir á stofn ráðningarskrifstofu, en það geta þeir án allrar íhlutunar löggjafarinnar. Fyrir hv. þm. V.-Ísf. vakir einkum, að ráðningarskrifstofur bæjanna hafi sem nánasta samvinnu sín á milli, og er það sjálfsagt atriði. En honum tókst ekki að sannfæra mig um það, að þörf væri á lagasetningu um þetta efni. Hv. þm. sagðist vera hissa á því, að bæjarstj. Rvíkur hefði ekki leyft verkalýðsfélögunum í bænum að hafa íhlutunarrétt um ráðningarskrifstofuna. En þetta er mesti misskilningur. Ráðningarskrifstofa bæjarins mun verða rekin í meiri eða minni samvinnu bæði við verkalýðsfélögin og atvinnurekendur. Það er langt frá því, að bæjarstj. ætli sér að útiloka þessa aðila, eða að maður sá, sem veitir stofnuninni forstöðu, beiti þar einhverju einræði. Ég veit, að hv. þm. verður þetta ljóst, ef hann athugar úthlutun atvinnubótavinnunnar í bænum. Með þá úthlutun er farið alveg eftir vissum reglum, eftir því, hvað menn hafa haft marga vinnudaga á árinu, hvort þeir eru kvæntir og eiga börn. Líklegt er, að slíkar fastar reglur myndist einnig um aðra úthlutun vinnu. Og þegar regla er einu sinni komin á þetta, þykir það sjálfsagt. T. d. hefir úthlutun atvinnubótanna farið fram í náinni samvinnu við fátækrafulltrúana, sem ekki hafa verið skipaðir úr neinum sérstökum flokki hingað til, og jafnaðarmenn hafa átt þar sæti og eiga. Ennfremur hefir bæjarverkfræðingur verið hafður með í ráðum um úthlutun vinnunnar í bænum. Þetta er eðlileg afleiðing af því, að ráðningarskrifstofan stendur beint undir borgarstjóra og bæjarstjórn. Og í gegnum bæjarstj. geta fulltrúar jafnaðarmanna auðvitað haft íhlutunarrétt um störf skrifstofunnar.

Út af þeim ummælum hv. 1. landsk., að Rvíkurbær hefði sama íhlutunarrétt utan starfrækslu fyrirhugaðrar skrifstofu, hvort stj. hennar skipuðu 3 eða 5 menn, vildi ég aðeins segja það, að þetta eru gegnsæjar blekkingar. Það geta allir séð, sem bera saman brtt. hv. þm. V.-Ísf. og frvgr., því samkv. brtt. á bærinn að ráða 1 manni af þremur í stj., en samkv. frv. ekki nema 1 af fimm. Það þarf ekki annað en að sjá þessar tölur til þess að sannfærast um, að sá maður, sem ræður yfir 1/3 hl. stj., hefir meira íhlutunarvald en sá, sem aðeins ræður yfir 1/5 hluta. Ef það væri svo, að bærinn hefði í báðum tilfellum sama íhlutunarrétt, ætti stjórnarliðum að vera ljúft að samþ. brtt. hv. þm. V.-Ísf., til samkomulags. En þarna er um eðlisbreytingu að ræða. Það er í fyllsta máta óviðfelldið, að hv. þm. ætlar þdm. svo heimska, að þeir sjái ekki þennan mun. - Ummæli þessa hv. þm., að hér sé ekki verið að ganga á rétt Reykv., heldur sé verið að varna því, að bæjarstj. sýni af sér ofbeldi, eru mér ekki vel ljós. Þýði yfirráð þessarar skrifstofu það, að ofbeldi verði beitt, þá skilst mér, að með frv. þessu sé stj. og meiri hl. allshn. að tryggja sér það ofbeldi, ekki sízt, ef felldar verða brtt. hv. þm. V.-Ísf. En ef þessir aðilar þurfa endilega að gangast í gegn hver öðrum, þá kysi ég frekar, að ofbeldið væri bæjarins megin. Ég bið hv. þdm. vel að athuga það, að bæjarstj. fer hér ekki fram á annað en að mega skipa sérmálum Rvíkurbæjar eins og löglega kosinn meiri hl. bæjarstj. óskar. Og það er því fyllsta ofbeldisráðstöfun af hæstv. ríkisstj. að ætla að setja l. um skrifstofubákn, sem kosta á af bænum að mestu leyti og skipa svo stj. þessu fyrirtækis í andstöðu við meiri hl. bæjarstj.

Ég get verið sammála hv. 1. landsk. um það, að rangt sé að útiloka nokkra aðila. En það er ekki heldur gert í till. hv. þm. V.-Ísf., svo að það er engin ástæða til þess að vera henni andstæður. Ég hefi líka sýnt fram á, að þótt ráðningarskrifstofan sé rekin af bænum eins og nú, þá hafa þessir aðilar samt íhlutunarrétt á sinn hátt. Hv. 1. landsk. sagðist þekkja svo vel forráðamenn Rvíkurbæjar, að þeir mundu gera fátt eitt af því, sem stendur í 2. gr. frv., ef framkvæmdirnar yrðu lagðar þeim í hendur. Ég held nú, að jafnaðarmenn mættu vera montnir, ef þeir gætu sýnt aðra eins forráðamenn og aðra eins fjárhagslega afkomu í bæjum þeim, sem þeir hafa meirihlutavald í, t. d. Ísafirði og Hafnarfirði. Ég tek þó fram, að með þessu er ég á engan hátt að gera lítið úr hv. þm. Hafnf. persónulega, en hann er bæjarstjóri í Hafnarfirði, sem kunnugt er. En það hefir nú einhvernveginn atvikazt svo, að forráð jafnaðarmanna fyrir bæjum hefir ekki tekizt sem skyldi. Hv. 1. landsk. ætti því að fara gætilega í að bera saman forráðamenn Rvíkur og jafnaðarmannabæjanna. Ég veit, að hv. þm. viðurkennir þetta í hjarta sínu, þó að hann vilji ekki láta það koma fram í umr. - Annars veit ég ekki, með hvaða rökum hv. þm. ber forráðamönnum Rvíkur það á brýn, að þeir muni ekki fylgja lagafyrirmælum. Ég vil t. d. benda á l. um atvinnuleysisskráningar. Það er eitt atriði, sem þessari vinnumiðlunarskrifstofu er ætlað að framkvæma. Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann geti borið forráðamönnum Rvíkur á brýn vanrækslu í þessu efni? Hitt er annað og óskylt mál, þó að hv. þm. vilji ekki gefa forráðamönnum bæjarins traust sitt í pólitískum efnum.

Hv. þm. hneykslaðist á því, að ég skyldi minnast á bitlingaúthlutun stj. í sambandi við þetta mál. Ég skal ekki tala um það atriði langt mál, en þó benda á nokkur dæmi. Ég tek þá af handahófi nokkur frumvörp, og fyrst verður fyrir mér mál, sem var afgr. héðan úr d. í gær, um hlutaruppbót sjómanna. Þar er gert ráð fyrir, að þrír af fylgismönnum stj. fái bitlinga. Í frv. til l. um verkamannabústaði er gert ráð fyrir fimm manna n. í kaupstöðum. Af þeim verða a. m. k. þrír á hverjum stað fylgismenn stj. Þá er hér frv. um einkasölu á áfengi. Einhverjir stjórnargæðingar fá atvinnu við að blanda ilmvötn, hárvötn, bökunardropa o. s. frv. Ef mér bregzt ekki verður farið meira eftir pólitískum lit við skipun í þessar stöður en því, hvort mennirnir séu hæfir til embættanna. Í frv. til l. um gjaldeyrisverzlun er svo ákveðið, að fjmrh. skipi þrjá af fimm mönnum í gjaldeyrisn., þar eru þrír bitlingar á takteinum. Einhverjir fá bitling við einkasölu á eldspýtum og vindlingapappír. Þrír menn fá bitlinga við ríkisútgáfu skólabóka. Og í þessu frv., sem hér um ræðir, gera rauðliðar ráð fyrir að fá 3 menn í stj. ráðningarskrifstofu, fimm hafa verið settir í kjötverðlagsn., af sjö mönnum í mjólkursölun. skipar landbrh. tvo. Fimm menn hafa atvinnu í „Rauðku“, og held ég, að enginn ágreiningur sé um það, að þar séu stuðningsmenn núv. stj. Þá má nefna einkasölu á bifreiðum, mótorhjólum og rafmagnsvélum, sem yrði mjög umfangsmikið fyrirtæki. Þar verður vafalaust einhver „habil“ jafnaðarmaður settur sem generalforstjóri, einn sérfræðingur í bifreiðum, annar í mótorum, þriðji í rafmagnsvélum, auk heils hers af skrifstofufólki og lagermönnum. Þá er ekki úr vegi að minnast á ferðamannaskrifstofu ríkisins. Hver ætli fái hana? Ja - ég veit nú raunar, handa hverjum sá bitlingur er, en það skiptir engu máli. Eftirlit með opinberum rekstri á að fara fram í þrem flokkum, af þriggja manna ráði í hverjum flokki. Þar hefir stj. fyrirhugað níu mönnum atvinnu. Loks má nefna fóðurbætiseinkasölu ríkisins. Ég hefði nú viljað gera það að till. minni, að öll bitlingaúthlutunin yrði falin þessari stofnun, þar sem þetta má skoða sem nokkurskonar fóðurbæti handa flokksmönnum stj.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Reykv. og byrja með því að lofa honum því, að nefna hann alltaf „háttvirtan“ hér í d., án þess þó, að þar með sé sagt, á hverju stigi virðing mín fyrir þessum hv. þm. er. Ég mun í þessu hlíta þingsköpum, þó að hv. 2. þm. Reykv. geri það ekki, en vilji hafa sérstöðu um það mál eins og svo mörg önnur. (HV: Ég mun ekki verða við óskum þm. um að kalla hann háttvirtan). Það hefir engin áhrif á ákvörðun mína um fyllstu kurteisi í garð hv. 2. þm. Reykv. - Þessi hv. þm. sagðist áður hafa lýst afstöðu verklýðsfélaganna til ráðningarskrifstofu bæjarins. Já, sú afstaða er flestum kunn. Hv. þm. og flokksmenn hans sáu ástæðu til þess að rjúka upp og stofna aðra ráðningarskrifstofu, sem átti að hafa nákvæmlega sama starfi að gegna. Þarna sést, hvað þessi hv. þm. gerir, ef hann telur, að gengið sé á hluta hans eða flokks hans. Og það ætti að gera honum skiljanlegt, að ekki er alveg víst, að Rvíkurbær taki með tómum þökkum á móti þessari ráðningarskrifstofu, sem nú á að fara að þvinga upp á hann. Hv. þm. verður að gera sér það ljóst, að það þýðir ekki að berja í borðið og segja, að svona skuli þetta og þetta vera. Hér eru fleiri aðilar, sem verður að taka tillit til. Stjórnarliðið verður að gera sér ljóst, að svona skrifstofa, sett niður í fullkominni óþökk meiri hl. bæjarstj., getur aldrei náð tilgangi sínum, heldur verður aðeins til þess að vekja óánægju og hatur. Það er alveg út í bláinn hjá hv. þm., að meiri hl. bæjarstj. Rvíkur sé eitthvað andstæður hagsmunum verkalýðsins í bænum. Þetta eru slagorð, sem hv. þm. heldur, að hljómi vel, - en það var misheppnað að ætla að finna þessum orðum sínum stað í verkamannabústaðamálinu. Þar kom í ljós, að byggingarfél. sjálfstæðra verkamanna taldi um 350 félaga. Þarna var þá álitlegur hópur verkamanna, sem treysti sjálfstæðismönnum betur til þess að gæta hagsmuna sinna en hv. 2. þm. Reykv. og flokksmönnum hans.

Það kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv., að það, sem ræður afstöðu hans og flokksbræðra hans í þessu máli, er það, að fyrir skrifstofuna var ráðinn fyrrv. formaður Varðarfélagsins. Þeir halda, þessir hv. jafnaðarmenn, að enginn geti starfað án þess að pólitískar skoðanir ráði gerðum hans í smáu sem stóru, að enginn geti starfað í samræmi við samvizku sína. Þetta voru einu rökin, sem hann færði fyrir því, að setja aðra skrifstofu á stofn.

Þá kem ég að því, sem þessi sami hv. þm. kallaði uppreisnartal. Mín ummæli voru á þá leið, að ég sagði, að kviknað gæti í steinolíu. En það getur kviknað í fleiru en olíu. Og ég skal segja hv. þm. það, að minni hl. getur þrengt svo kosti meiri hl., að hann eigi engar útgöngudyr. Hv. þm. getur dregið af þessu þær ályktanir, sem honum sýnist. Hann lýsti því yfir áðan, að verkalýðsfélögin mundu taka til sinna ráða, ef þessu máli fengist ekki framgengt. Hvað var þetta annað en hótun um uppreisn? Hv. þm. er fyrirfram ákveðinn í því að stofna til uppreisnar, ef hann fær eigi vilja sínum framgengt. Annars get ég vel skilið, að hv. þm. skoði orð mín sem hótun um uppreisn, þegar hann ber þau saman við sínar eigin athafnir. En ég get sagt honum, að hér eru mörg lögleg ráð, sem grípa má til, t. d. að hlíta eigi þeim þvingunarlögum, sem Alþ. setur til þess að kúga meiri hl. í bæjarstj. Rvíkur. Hv. þm. þarf ekki að verða hissa, þó að honum sé sagt, að svo langt geti hann gengið, að andstæðingar hans þoli hann ekki sem einræðisherra. Ég veit, að hann er formaður Dagsbrúnar, en það er fullkominn misskilningur, ef hann heldur, að allir verkamenn séu stuðningsmenn hans. Meðan hann sýnir ekki með atkvgr., að hann hafi virkilegt fylgi verkamanna, er allt tal hans um þá hluti tómur gorgeir. Með allri virðingu fyrir starfi hv. þm. í þágu verkalýðsfélaganna þori ég að fullyrða, að verkalýðurinn treystir þeim, sem nú fara með stj. bæjarmálanna, eigi síður en honum.

Það, sem skiptir máli hér, er það, að löggjafarvaldið á ekki, að mínu áliti, að setja l., sem svipta löglega kosinn meiri hl. bæjarstj. valdi sínu. Það er bæjarstj., sem á að ráða því, hvernig atvinnubótavinnu er úthlutað, það er hún, sem á að hafa ráðin yfir þessari skrifstofu, því að það er hún, sem stendur fyrir framkvæmdum og greiðslu. Það er auðsætt, að eini tilgangurinn með þessu frv. er sá, að koma fyrir kattarnef skrifstofu, sem bæjarstj. hefir sett á stofn á löglegan hátt. En ég hefi þá trú á réttlætistilfinningu hv. þm., að meiri hl. þeirra geti ekki fengið sig til að ljá slíku máli lið.