23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

26. mál, vinnumiðlun

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er tvennt, sem einkum einkennir framkomu þeirra manna, sem nú ráða Alþ. og stj. Er vert að gefa þessu fullan gaum, því að sama sagan endurtekur sig nær því daglega. Bar nokkuð á þessu á aukaþinginu í fyrra, þó að eigi gengi það eins langt þá og nú. En nú er svo komið, að þessir menn gera hvað eftir annað ýtarlegar og ósvífnar tilraunir til að sölsa undir sig réttindi einstaklinga og félagsheilda, svo sem bæjar- og sýslufél. Þetta er tiltölulega nýtt hér á landi og kemur ýmsum ókunnuglega fyrir, að höggvið sé svo nærri þeim réttindum, sem við að l. eigum að hafa óskert. Í meðvitund eldri manna a. m. k. er það sjálfsögð skylda að gæta þess vandlega að brjóta eigi í bág við þau grundvallaratriði mannréttinda, sem tilgreind eru í stjórnarskránni. Í 64. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna nema almenningsheill krefji“. En nú krefjast þessir menn þess, að allur atvinnurekstur sé tekinn af einstaklingunum og lagður undir ríkisvaldið.

Eins og kunnugt er, stafa þessi ákvæði í stjórnarskránni frá stjórnarbyltingunni frönsku, og það mætti ætla, að þeim flokkum, sem þykir skyldugt að botnvelta og umvelta öllu þjóðfélaginu, væri minnisstætt, hvaðan krafan um þessi réttindi einstaklingsins er runnin. Það varð fljóti almennur skilningur á þessu atriði, að hver maður hefði rétt til að stunda hverja heiðarlega atvinnu án þess hún væri af honum tekin, og að slíkt mætti eigi skerða nema almenningsheill krefði. En hver treystir sér til að halda því fram, að almenningsheill krefjist þess, að komið sé á t. d. einokunarverzlun með eldspýtur, ilmvötn og andlitsduft? Sá andi, sem liggur á bak við stjórnarskrána, er ótvíræður, og fyrir 20 árum hefði enginn leyft sér að halda því fram, að nauðsynlegt væri að fara inn á þessa braut.

Um hitt atriðið, rétt félagsheildanna, skal ég leyfa mér að vísa í 71 gr. stjórnarskrárinnar, en hún hljóðar svo: „Rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum“. Hér er slegið föstum þeim frumrétti sveitarfél. að ráða málefnum sínum sjálf. Sjá allir, að það nær engri átt, að hver flokkur, sem ofan á verður, geti kollvarpað þessum grundvallarréttindum og gert félagsheildir réttlausar, farið ofan í vasa borgaranna og fyrirskipað þeim fjárútlát aðeins til þess að þjóna lund sinni. Þetta er að vísu ekki alveg nýtt, því að það hefir verið vegið í þennan knérunn áður.

Hv. 1. landsk. minntist á frv. til l. um lögreglumenn, en það er ekki sambærilegt við þetta, því að þau l. voru sett vegna nauðsynja þjóðfélagsins. Collega minn í jura, hv. 1. landsk., veit vel, að fyrirskipað er að halda uppi lögvernd borgaranna, þó að flokksbræður hans virtust ekki kæra sig um slíkt 9. nóv. 1932. - L. um gagnfræðaskóla, sem vitnað var í, eru ekki heldur sambærileg, því þó að þau l. séu meingölluð, er þar ekki ráðizt á rétt einstaklinganna. En ég vil nefna eitt dæmi, þar sem farið var hrottalega inn á þennan rétt. En það var þegar fyrirskipað var með l., án þess að bæjarfél. og sveitarfél. væru aðspurð, að gjalda skyldi til ríkissjóðs helmingi hærri skatt vegna berklavarna heldur en fólksfjöldi er í héraði. Það tel ég, að verið hafi hreint lagaleysi, þó að það sé of langt mál til að fara út í það hér.

Það kom fram hjá hv. 1. landsk., að þetta væri hefnd fyrir ofbeldi. Þau l., sem eingöngu eru samin með það fyrir augum, að koma fram hefndum fyrir ofbeldi, eru ekki allskostar aðgengileg. Slíkt er of veikur grundvöllur fyrir mjög hæpna löggjöf um atvinnu bæjar- og sýslufélaga. Hv. 1. landsk. telur bæjarstj. Rvíkur beita ofbeldi, þótt hún vilji ekki kalla „Alþýðusambandið“ á ráðstefnu, til þess að bera undir álit þess, hvað gert skuli í þessu máli. Hv. 1. landsk. átti sjálfur sæti í bæjarráði, svo að hann ætti að vita, að þetta er rangt. Hann gat sjálfur borið fram till. um það, að fulltrúum verklýðsfélaganna væri heimilaður tillöguréttur í þessu máli. En í þess stað steinþegir hann. Það er þess vegna óskiljanlegt, að það sé í raun og veru skoðun hv. 1. landsk., að fyrir þetta ofbeldi, sem hann nefnir svo, eigi að koma hefnd í þessu máli, nema því aðeins, að hann áliti þá leið hina réttu og raunverulega lögmætu. Það mun hv. þm. ekki gera opinberlega. Ég býst við, að annað hefði átt að vaka fyrir hæstv. ríkisstj. eða forráðamönnum hennar. Það hefir sem sé komið upp úr dúrnum undanfarna daga, að hæstv. ríkisstj. á forráðamenn fyrir utan sjálfa sig. Það er ekki einungis, að stjórnarflokkarnir sem slíkir standi að henni, heldur jafnvel aðeins einn eða tveir menn. Einnig er það svo, eins og kunnugt er, að Framsóknarfl. skipar, ásamt Alþýðufl., meiri hl. hv. þings, enda þótt hann sé í rauninni minni hluta flokkur. Áhrifin standa því hér í öfugu hlutfalli við atkvæðamagnið. Hv. 2. þm. Reykv. skipar ekki einungis hæstv. ríkisstj., hvað hún eigi að gera, heldur gefur hann einnig hæstv. forseta Sþ. fyrirskipanir um, hvernig hann eigi að hegða sér. Og hann hlýðir því. Fyrir þessum mönnum vakir þannig, fyrir utan annað það, sem hv. 1. landsk. tók fram, að koma fram hefndum, einnig að ná meiri tökum á fólkinu en þeir þóttust hafa náð, með hvaða ráði sem er. Jafnvel þótt þeir verði að viðurkenna lýðræðið, heimta þeir samt rétt til þess að ráða yfir andstæðingunum í Rvík, sem eru í meiri hl. Þeir vilja koma fram hefndum og koma því í framkvæmd með löggjöf, sem þeir geta ekki gert ella á stjórnarskipulegan hátt.

Þess gengur enginn dulinn, að þessum mönnum hefði ekki komið til hugar að setja í 1. gr. frv. heimild, til þess að veita hæstv. atvmrh. einræði í þessum efnum, ef það hefði verið til þess að vernda lýðræðið í þessum bæ. Þeim hefði ekki heldur komið það til hugar fyrir ári síðan, er annar var ráðh., því að þeir miða við einn flokk og jafnvel einstaka menn, í þessum efnum, en ekki við velferð almennings.

Nú er ákveðinn maður atvmrh., og þeir búast að sjálfsögðu við því, að hann verði það til eilífðar. Þeir miða löggjöfina því við hann. Þeir eiga ríkisstj. og geta látið hana vinna fyrir sig eftir vild.

Það er öllum lýðum ljóst, að ef hér ætti að gæta einhvers réttlætis, þá hlyti að nægja, að stofnuð væri eða til væri vinnumiðlunarskrifstofa í sérhverjum kaupstað. En nú stendur svo á í Rvík, að bæjarstj. þar er skipuð meiri hl. andstæðinganna. Þá þurfti hitt endilega að koma, að ráðh. hefði einn valdið. Eiginlega má segja, að í frv. standi:

Atvmrh. stofnar til vinnumiðlunarskrifstofu í hverjum kaupstað landsins“. Hitt var í rauninni öldungis óþarft.

2. og 3. gr. frv. ber vott um, að þeir séu að reyna að ná undir sig fólkinu. Þar er sagt, að skrifstofa þessi skuli skipuð af meiri hl. þeirra, sem eru í minni hl. í bæjum, eins og hér í Rvík nú. Þeir eiga svo að miðla vinnunni milli bæjarbúa. Þeir eiga að ráða, hvernig vinnumiðluninni er háttað, hvernig henni er skipt og hverjir fá vinnu. Úthlutun þeirrar atvinnu skal bærinn kosta, en þeir eiga að framkvæma úthlutunina.

Atvinnubótavinnan stendur í nánu sambandi við umráðin yfir fólkinu. Sósíalistar notfæra sér atvinnubótavinnu og atvinnuleysisstyrk, sem að vísu er ekki beinlínis í l. hér á landi, til þess að afla sér fylgis. Það liggur í augum uppi, hvað þeir ætla sér með þessu, þar sem það er öllum kunnugt, að ekki er hægt að bera atvinnuleysi hér á landi saman við atvinnuleysi það, sem ríkir viðast hvar erlendis. Og í sambandi við þetta leyfa þessir menn sér að nota lagaheimild til þess að safna atvinnuleysisskýrslum um háannatímann. Í júlí og ágúst fá þeir gefna upp tölu atvinnuleysingja, aðeins til þess að geta sagt, að svona sé atvinnuleysið mikið á þessum tíma, sem landsmenn eru alveg óvanir að tala um atvinnuleysi. Okkur varðar í rauninni lítið um, hverjir ráfa um hér á götunum iðjulausir, meðan kappnóg atvinna er á boðstólum, bæði til lands og sjávar. Það er vissulega hart, að menn skuli nota sér slík mál sjálfum sér til fylgis og framdráttar í stjórnmálum.

Þótt þessi vinnumiðlunarskrifstofa, sem frv. gerir ráð fyrir, yrði stofnsett, og þótt brtt. hv. þm. V.-Ísf. um vinnumiðlun milli kaupstaða yrði samþ., þá er hún út af fyrir sig tilgangslítil, því að boginn er svo hátt spenntur, að bændur hafa ekki ráð á því, að taka vinnufólk úr kaupstöðum, sökum þess, hve kaupgjaldið er hátt. Af þessari ástæðu er þýðingarlaust að samþ. brtt. hv. þm. V.-Ísf., enda þótt hún sé raunar að nokkru leyti til bóta. En ef hann hefði viljað taka fram, að vinnubrögð þau, sem hér um ræðir, væru unnin af öðrum mönnum en þeim, sem nú inna þau af hendi, hefði hann getað látið sér nægja að hafa þessa hugmynd sína einungis bundna við það, að atvmrn. mætti fela sérstökum fulltrúa öll þau störf, sem snerta vinnumiðlun milli kaupstaða og sveita. En það hefir greinilega verið sýnt fram á, að meiri hl. bæjarstj. Rvíkur hefir enga þörf fyrir þessa breyt. Hann er einfær um að leysa þetta verk af hendi. Þess gerist ekki þörf, að ríkið taki að sér allt skrifstofuhald þessara vinnumiðlunarskrifstofa, sé einskonar atvinnurekandi, miðli vinnu manna á meðal og beri kostnaðinn af þeim sökum. Þennan varnagla átti að slá, ef ske kynni, að bæirnir vildu ekki taka þátt í stofnsetningu slíkra skrifstofa, sökum mikils rekstrarkostnaðar þeirra. Það er ekki ólíklegt, að tillag ríkisins geti orðið mikið, því að alþjóð er kunnug ófyrirleitni þessara manna, þegar um það er að ræða að taka fé af því opinbera.

Að lokum vil ég leyfa mér að spyrja. Hvað á þetta eiginlega að þýða? Á þetta að vera einskonar ögrun fyrir fólkið? Er þetta tilraun til þess að brjóta anda stjskr. eða er þetta aðeins hefnd fyrir ímyndað ofbeldi af hálfu meiri hl. bæjarstj.?

Stjórnarfl. hafa gert hinn rauða sáttmála um þetta. Gildir hann um allt, sem þessir flokkar finna upp á? Eru þessir flokkar líka skuldbundnir til þess að samþ. þetta mál? Hugsum okkur, að vinnumiðlunarskrifstofa meiri hl. bæjarstj. starfi áfram. Hvað ætlar landsstj. sér þá að gera við hana?

Það liggur nærri að álykta, að hæstv. ríkisstj. ætli sér, samkv. þessum l., að veita sósíalistum einum fé til þeirra eigin vinnumiðlunarskrifstofu. Þeir hafa sjálfir skrifstofu, og það fullnægir í rauninni því, sem sósíalista vanhagar um í þessum efnum. Þetta mál verður e. t. v. vindhögg í framkvæmdinni, en eins og til þess er nú stofnað, er það a. m. k. fullkomin ósvífni.