23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

26. mál, vinnumiðlun

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mikið.

Ég vil beina því til hæstv. forseta, hvort honum þætti ekki ástæða til að athuga fæðingarvottorð hv. 9. landsk., og um leið biðja hann að hlutast til um það, að þingflokkar væru hér nefndir réttu nafni. Hv. 9. landsk. talaði hér um íhaldsflokk, sem hann nefndi svo, og sagði, að menn væru ekki íhaldsmenn lengur en til 6 ára aldurs, nema einstöku örverpi væru það lengur. Nú eru ekki nema 8 ár síðan þessi hv. þm. var einn af mínum ágætu stuðningsmönnum, - það var árið 1926, - og ef hann hefir verið 6 ára þá, ætti hann að vera 14 ára nú, nema ef hann er eitt af þessum örverpum, þá gæti hann verið eldri.

Ennfremur vil ég beina því til hæstv. forseta í sambandi við þá merkilegu ráðningu, sem hann gaf hv. 2. þm. Reykv., að hann, hæstv. forseti, haldi fast við það, sem hann óskaði þá eftir, að réttir þingsiðir væru haldnir, þ. á. m., að þm. kalli hver annan háttvirtan, svo sem þingsköp eru til. Það eykur áreiðanlega ekki á virðingu þingsins, ef sagt er „ráðherraræfillinn“, „þingmannsskepnan“ eða „forsetagarmurinn“. Það er því rétt að halda þeim sið, að þm. segi „háttvirtur“, þegar þeir tala hver um annan.

Að öðru leyti vil ég segja það sem mína skoðun, að í þessu máli eru nú fram komin þau rök, að ég bæti litlu þar við. Ég vil þó vekja athygli á því, sem er kjarni þessa máls, að bæjarstj. Rvíkur hefir stofnað ráðningarskrifstofu hér í bænum, og auðvitað á bæjarstj. til þess fullan rétt, enda er bæjarstj. og sveitarstj. með l. tilskilinn slíkur réttur. En þrátt fyrir þennan lögfesta rétt láta jafnaðarmenn sér sæma að nota þennan hæpna þingmeirihluta til að brjóta ákvæði þessarar löggjafar með nýrri lagasetningu eins og þeirri, sem hér ræðir um, því að það er alveg augljós og auðskilinn sannleikur, að tilgangur þessa frv. er sá og sá einn, að brjóta þennan rétt, og fyrir því hefir líka í raun og veru fengizt viðurkenning við þessa umr. Rök jafnaðarmanna í þessu máli eru þau, að bæjarstj. Rvíkur hafi framið þá synd, að skipa forstöðumann þessarar ráðningarskrifstofu mann, sem hafi haft sig mjög í frammi í stjórnmálum. Í öðru máli, sem sé fyrsta málinu á dagskrá hér í dag, framfylgja jafnaðarmenn breyt., ekki til þess að koma því, sem þar um ræðir, undan oki þeirra manna, sem mjög hafa haft sig í frammi í stjórnmálum, heldur er þar verið að draga það undir ok þeirra. Í þessu frv. um verkamannabústaðina eru jafnaðarmenn nú að reyna að fá allt lagt undir stj. Héðins Valdimarssonar, hv. 2. þm. Reykv., en hann hefir eins og flestir vita haft sig mjög í frammi á sviði stjórnmálanna nú um langt skeið og ekki þótt sanngjarnastur þeirra, er sézt hafa á þeim vettvangi. Þetta er ekki skemmtileg mynd af lýðræðismönnum, þegar þeir geta haft sig til að fylgja tveimur svona málum í einu. Það er ekki hægt að finna fyrir þessum frv. frambærileg rök, sem ekki stangast.

Ég ætla ekki að lengja umr. með því að vega þau rök, sem fram hafa komið hjá málsvörum hvorrar stefnu fyrir sig. En þó þykir mér rétt að benda á það, að hv. 2. þm. Reykv. lét hér falla þau ummæli, að ef löggjafinn vildi ekki samþ. ákvæði þessa frv., þá mundi það ekki öllu máli skipta, því að þá mundi hann og það fél., sem hann stjórnar, verkamannafél. Dagsbrún, taka til sinna ráða. Með þessu er hann að segja, að ef þessi hæpni og ranglega fengni þingmeirihluti fæst ekki til að brjóta áður sett l. í því skyni að kúga lýðræðislega skipaðan meiri hl. bæjarstj. Rvíkur, þá ætli þessi hv. þm. ekki að grátbæna þingmeirihlutann, því að hann geti þá gripið til sinna ráða án hjálpar þingmeirihlutans. Hvernig er hægt að draga skýrar fram einræðishugsun en með svona yfirlýsingum? Illa fenginn þingmeirihluta vill hann nota, ef það er hægt. Að öðrum kosti grípur hann til sinna ráða, hvað sem l. áhrærir.

Ég ætla ekki að hafa í hótunum um neina byltingu, en ég tek undir það, sem hv. 8. landsk. sagði í dag og vil sérstaklega minna hv. 2. þm. Reykv. á það, að það getur kviknað í fleiru en olíu. Ég vil minna hann á 9. nóv. Þá kviknaði ekki í olíu, en það kviknaði í olíusala hér. Þá taldi hann sér misboðið, af því að lögreglan hafði sig í frammi, og þá hikaði hann ekki við að gripa til ofbeldis. Ég vil segja hv. þm. það, að eins og nú standa sakir í þessu þjóðfélagi, þá er nú ekki aukandi á vandræðin með því að auka á sundurþykkjuna að óþörfu. Það er ekki ástæða fyrir þennan hæpna þingmeirihluta að beita Sjálfstæðisfl. og Bændafl. því ofbeldi, sem nú er daglega reynt af þessum flokkum, sem standa að núv. stj. og þó einkum af sósíalistum.

Ég endurtek það, að ég er ekki að boða neina byltingu, en ég gef þeim verðskuldaða aðvörun um að beita valdi sínu í einhverju hófi á þessu þingi.