23.10.1934
Neðri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

26. mál, vinnumiðlun

Emil Jónsson:

Ég hefi ekki hugsað mér að lengja þessar umr. mikið, en hér hafa nú komið fram ummæli, sem gáfu mér tilefni til að láta í ljós fyrst og fremst skoðun mína á þessu máli, og vil ég þá víkja einnig að nokkrum atriðum, sem ég álít, að þurfi að leiðrétta.

Mér finnst þetta frv. mjög sanngjarnt, og undarlegt, að það skuli hafa mætt svo mikilli mótspyrnu. Það verður ekki skilið nema á einn veg, sem ég mun nú koma að.

Því hefir verið haldið fram af hv. þm. V.-Sk., að frv. mundi fara nærri því að brjóta stjórnarskrána, þar sem bæjarfél. væri fyrirskipað að halda uppi þeirri stofnun, sem hér um ræðir, og stofna þar með til allmikilla útgjalda.

Ég skal játa, þó að það sé e. t. v. ekki þinglegt, að ég er ekki það vel að mér í lögfræði, að ég geti deilt þar við hann. En það liggur í hlutarins eðli, að þegar löggjafinn hefir rétt til að skipa fyrir um ýmis málefni í kaupstöðum, sem hann telur ástæðu til, þá hefir hann einnig rétt á að skipa fyrir um þetta mál, því að það er það mikils virði, og ekki sama, hvernig um það fer. Löggjafanum hefir þótt ástæða til að skipa fyrir um barnafræðslu í kaupstöðum og hefir lagt ríka áherzlu á það, að öll börn fengju sem mesta fræðslu, og í sambandi við það hafa bæjarfél. orðið að taka á sig ærin útgjöld og ekki verið spurð að. Sama má segja um unglingafræðsluna í kaupstöðunum. Þar hefir löggjafinn lagt mikil útgjöld á bæjarfél. og ekki spurt þau að. Það eru ýmis önnur mál kaupstaða, sem ákveðið hefir verið í l., hvernig skuli fara með, t. d. heilbrigðismál og brunamál og ýmis fleiri mál, sem hafa haft mikil útgjöld í för með sér fyrir bæjarfél., og þau ekki verið spurð um. Þess vegna er ekkert fremur ástæða að gera það einmitt í þessu máli.

En þá er eitt, sem verður að athuga í þessu sambandi, og það er það, hvort þetta mál sé svo þýðingarmikið, að hægt sé að skipa því á bekk með öðrum þeim málum, sem Alþ. hefir nú þegar sett ákvæði um, hversu skuli stjórna í bæjunum. Ég tel atvinnuspursmálið svo mikið mál, að löggjafinn verði ekki síður að láta það til sín taka en t. d. fræðslumál og heilbrigðismál.

Hv. þm. sagði, og vildi að því er mér virtist gera það hlægilegt, að það væri verið að safna mönnum til atvinnuleysisskráningar um mesta annatímann, af því einu tilefni, að afla sósíalistum fylgis. Þeir væru að hóa fólkinu saman, ekki af því að þeir vildu láta það fá neitt að gera eða yfirleitt gera neitt fyrir það, heldur aðeins til að fá fylgi þess sér til pólitísks framdráttar.

Þetta sýnir fyrst og fremst, að þessi hv. þm. er ekki kunnugur ástandinu eins og það er nú í kaupstöðunum. Það er áreiðanlega ekki ófyrirsynju, að menn eru kallaðir til skráningar til að vita um atvinnu þeirra og afkomu, svo að hægt sé að gera skynsamlegar ráðstafanir til að ráða bætur á. Hitt er alrangt, að þetta sé gert sósíalistum til pólitísks framdráttar.

Hv. þm. sagði líka, að sósíalistar notuðu alstaðar atvinnubótavinnuna sér til pólitísks fylgis. Þetta er líka alrangt. Ég get upplýst hv. þm. um það, að þó að Hafnarfjörður sé ekki mikið til fyrirmyndar eftir því, sem hv. 8. landsk. álítur, þá hefir hann í þrjú síðustu ár hagað sinni atvinnuúthlutun þannig, að tveir menn annast hana. Annar er formaður verkamannafélagsins, en hinn er form. Sjálfstæðisfl. Hér er því báðum flokkum gert jafnt undir höfði. Sé pólitískt fylgi einhversstaðar látið ráða, þá er það ekki í Hafnarfirði, heldur einmitt hér í Rvík, því að þar eru eingöngu valdir til þessa starfs einlitir flokksmenn. Þar hefir enginn jafnaðarmaður fengið að komast að.

Eins og hv. þm. Vestm. benti á, þá hafa Vestmannaeyingar farið öðruvísi að en Hafnfirðingar. Þar hafa tvær n. unnið það verk, að úthluta vinnunni. Við gerðum ekki þetta, heldur höfðum tvo menn til þess, og starf þeirra hefir einkum verið þrjá síðustu mán. ársins, frá því í sept. og fram í des. Þeir hafa fengið fyrir það sína þóknun eins og hvert annað starf, og geri ég ráð fyrir, að vinnumiðlunarskrifstofa hefði svipað fyrirkomulag hjá okkur, svo að það yrði samrýmanlegt ákvæðum þessa frv.

Mér er ekki grunlaust, að þessi andstaða, sem hefir komið hér fram gegn þessu frv., sé fyrst og fremst sprottin af því, að sjálfstæðismenn og bæjarstjórnarmeirihlutinn hér í bæ vilji ekki missa þann rétt, sem þeir hafa tekið sér, að láta eingöngu sína flokksmenn hafa þessi störf með höndum, og vilja engum öðrum hleypa þar að. Má vera, að eitthvað annað sé hér til grundvallar, en það er a. m. k. ekki það, að sósíalistar séu að sölsa undir sig rétt til að verða einráðir um þetta mál, af því að sjálfstæðismönnum er tryggð íhlutun í því.

Ég mun svo ekki fara frekar út í þetta mál. Ég gæti vel farið út í það, að tala við hv. 8. landsk. um stj. Hafnarfjarðar og annara kaupstaða landsins. Það er ekki rétt að öllu leyti að taka hér Rvík til samanburðar. Þar er hægara um vík, því að þar eru komnir saman efnamestu og tekjuhæstu menn landsins, og er það ekki sambærilegt við fátæka verkamenn. Það verður þá að taka til samanburðar aðra kaupstaði, þar sem sjálfstæðismenn hafa stjórnað, og mun ég ekki skorast undan að taka þátt í þeim umr.

Það er vitanlega alls ekki sambærilegt, sem hv. þm. G.-K. var að bera saman, að hv. 2. þm. Reykv. væri formaður byggingarfél. verkamanna og að formaður Varðarfél. væri skipaður forstöðumaður atvinnumiðlunarskrifstofunnar hér í Rvík. Þetta er ósambærilegt, vegna þess, að hv. 2. þm. Reykv. er ekki skipaður af neinum til að vera formaður byggingarfél. verkamanna, heldur er hann kosinn til þess af fél. sjálfu, en formaður ráðningarskrifstofunnar er skipaður af meiri hl. bæjarstj. Rvíkur. Ef ofbeldi er til í þessu máli, þá er það ofbeldi, að annar aðilinn útiloki hinn frá því að mega hafa nokkur áhrif á skipunina.