24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

26. mál, vinnumiðlun

Bjarni Bjarnason:

Mildast talað hafa þessar umr. farið svo fram, að stífni gætir mest. Mun það sannast, þegar síðar verður blaðað í Alþt., að ræður manna eru ekki aðallega um kjarna málsins. Þau atriði frv., sem hafa komið umr. þessum af stað, eru, að meiri hl. bæjarstj. í Rvík hefir sett á stofn ráðningarskrifstofu, en atvmrh. er í andstöðuflokki þessa bæjarstj.meirihl. Nú er það alveg óvíst, hvað þessi stj. situr lengi. Spádómar hafa komið fram hér í hv. þd. um það, að hæstv. landstj. verði ekki langlíf. Þó þessir spádómar séu lítils virði, þá er óneitanlega einkennilegt, að frá þeim sömu mönnum skuli koma fram þessi mikli ótti við ofríki núv. hæstv. atvmrh.

Það er ekki með tilliti til neins meiri hl. í bæjarstj. á ýmsum tímum, að gert er ráð fyrir íhlutun atvmrh. um stj. þessara skrifstofa, heldur til þess að hann hafi bætta aðstöðu til gleggra yfirlits um atvinnulíf og atvinnuhætti í landinu yfirleitt. Mér finnst eðlilegt, að atvmrh. ráði miklu um það, hvernig vinnu er skipt milli manna, m. a. vegna þess, að nú er tekin upp í fjárl. ákveðin upphæð til atvinnubóta. Það hefir líka verið tekinn upp sá háttur, að ríkissjóður styrki margskonar atvinnu í landinu; er því eðlilegt, að stj. fái æ sterkari aðstöðu til þess að ráða t. d. því, hvernig framlög úr ríkissjóði eru notuð. Sú skoðun hefir komið fram í umr. um þetta mál, að atvinnurekendur létu fylgjendur sína í þjóðmálum ganga fyrir atvinnu. Þetta, ef rétt er, er ekki að minni skoðun vítavert, en mjög óhagkvæmt. Hlutverk vinnumiðlunarskrifstofu er að sjá um að úthluta vinnunni eftir þörfum, en ekki eftir pólitískum skoðunum vinnusala. Þetta tel ég spor í rétta átt, til að útiloka hlutdrægni í vinnumiðlun.

Aðdróttanir til einstakra manna, þar með talinn sá maður, sem veitir forstöðu ráðningarskrifstofu Rvíkurbæjar, tel ég óþarfar. Það er ennfremur sanngjarnt, að ríkisstj. hafi töluverða íhlutun um vinnumiðlun, t. d. samanborið við hliðstætt mál, markaðsleit, sem ríkið hefir styrkt. Þess er full þörf, og engu síður nauðsynlegt að hafa skipulag á atvinnunni í landinu fyrir verkamennina en markaðsleitum fyrir atvinnurekendur. Ég hefi bent á, að ríkið styrkir atvinnubótavinnu og heldur henni uppi og styrkir ýmsa iðju í landinu. Ég er því ósammála hv. þm. Borgf. um, að bæirnir eigi að bera uppi þessa starfsemi einir. Ég álít, að ríkið eigi einnig að styrkja hana, og jafnvel í framtíðinni að bera allan kostnaðinn af starfseminni.

Hvað má segja um sparifé landsmanna? Er það ekki lánað af fáum mönnum, sem fyrir því er trúað, til fárra einstakra manna, sem reka atvinnu í landinu? Þeir atvinnurekendur eru fáir, sem eru fjárhagslega sterkir. Ríkið ber ábyrgðina á þessu fé. Það er því alls ekki óeðlilegt, að ríkið vilji fá íhlutun um það, hvernig fénu er varið, t. d. að mönnum sé veitt atvinna án tillits til pólitískra skoðana.

Ég skal ekki fjölyrða um málið, en þetta er stórmál, sem þarf að leysa vel, og helzt með samkomulagi. Ég efa ekki, að það verður málinu til baga, ef stífnin heldur áfram. Getur vel verið, að þdm. finni einhverja miðlunartill. í þessu máli, sem samkomulag verði um. Samt efa ég það.

Áður en ég sezt niður, vildi ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. G.-K. Hann sagði í gær, að ranglega fenginn meiri hl. á þingi væri að kúga meiri hl. í bæjarstj. Rvíkur, sem væri fenginn á lýðræðislegum grundvelli. Ef hann heldur því fram, að meiri hl. þingsins sé ranglega kosinn, finnst mér dálítið ósamræmi í þessu. Flokkarnir sömdu hina nýju stjórnarskrá og kosningal., og um þá lausn var samkomulag flokkanna. Nú hafa kosningarnar farið fram eftir nýju kosningal., og því getur það ekki verið rétt, að meiri hl. sé rangfenginn. Eftir því, sem mig minnir, fengu Framsóknarfl. og Alþýðufl. svipaða eða jafna atkvæðatölu og Sjálfstæðisfl. Auk þess voru Kommúnistar og Bændaflokksmenn með um 6 þús. atkv. Ætti því að telja Bændafl. með Sjálfstæðisfl., sem mér heyrist, að jafnan sé ætlazt til, þá hafa þeir lítinn eða engan meiri hl. atkv. Í bæjarstj. Rvíkur hafa sjálfstæðismenn ekki meiri hl. kjósenda í Rvík bak við sig, ef ég man rétt. Sé það rétt, að meiri hl. þingsins sé rangfenginn, þá er meiri hl. í bæjarstj. Rvíkur líka rangfenginn.

Hv. þm. V.-Ísf. flytur brtt. um, að bæjarstj. kjósi formann í stj. væntanlegrar vinnumiðlunarskrifstofu. Ég get ekki fallizt á, að það sé rétt, og hefi fært rök að því, hvers vegna ríkið á að hafa vaxandi íhlutun um þessi mál.