24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

26. mál, vinnumiðlun

Thor Thors:

Þá er því lokið, að fá skorið úr því, hvort menn fá að taka til máls um þetta mikla deilumál.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr. Ég á sæti í þeirri n. sem hefir haft þetta mál til meðferðar, og hefi í sérstöku nál. gert grein fyrir skoðun minni. Ég kvaddi mér því hljóðs einungis að gefnu tilefni frá einum hv. þm., sem raunar virðist vera illa við, að hann sé kallaður háttvirtur, líklega af því

að hann veit, að jafn virðingarmikið orð hljómar hlægilega um hans fyrirferðarmiklu persónu. Hann veit það, hv. 2. þm. Reykv., að hjá fólkinu eru aðrar kenndir meira tengdar við hans nafn en virðingin. Og þó að hann þykist hafa ástæðu til að ætla, að einhverjir beri virðingu fyrir honum, þá mundi hann, ef hann skildi hlutina rétt, sjá, að hjá þeim mönnum, sem hann byggir tilveru sína á, ber meira á þrælsótta en virðingu í hans garð. Þessi hv. þm. gengur nú um deildina eins og hann eigi hana alla og aleinn, og einstakir þm. eru nú ekki lengur frjálsir að greiða atkv. samkv. sannfæringu sinni, án þess að fá ofanígjöf fyrir það hjá þessum hv. þm. Hann gefur þeim þm. úr stjórnarliðinu harða áminningu, sem láta sér sæma að greiða atkv. eins og þeir álíta rétt, en taka ekki tillit til þess, hvað hann vill.

Ég mun ekki strax snúa mér að þeim aðdróttunum, sem hann bar fram í minn garð, en geyma mér það feitasta á stykkinu þangað til síðast, en vil fyrst víkja að nokkrum öðrum atriðum, sem hafa komið hér fram.

Ég tel, að engin þörf sé að setja löggjöf um þetta, af því að ég veit, að kaupstaðirnir eru einfærir að ráða þessum málum til lykta eins og bezt horfir við innan hvers kaupstaðar. Vil ég þar benda á það, að þeir fulltrúar kaupstaða utan Rvíkur, sem hafa talað í þessu máli, hv. þm. Vestm., hv. þm. Ak. og það, sem merkilegast er, líka hv. þm. Hafnf., hafa ekki talið þörf á að fá slík l. sem þessi. Hv. þm. Hafnf. lýsti því mjög fagurlega, hversu gott samkomulag væri innan Hafnarfjarðar um þá vinnumiðlun, sem þar þyrfti að fara fram. Það var því ekki annað á orðum hans að skilja en að slík skrifstofa, sem hægt væri að skipa Hafnfirðingum að setja á stofn, ef frv. yrði að l., væri þar óþörf, eða a. m. k. væri ekki óskað eftir henni þar.

Frsm. meiri hl. allshn., í þessu máli, hv. 1. landsk., átti fyrst og fremst að vera aðalmálsvari þessa frv. En það fór svo, að hv. 2. þm. Reykv. tók það ómak af honum með öllu, svo að hv. 1. landsk. hefir horfið gersamlega í þessum umr. En hann sagði í fyrstu ræðu sinni og þeirri einu, sem hann hefir ennþá flutt við þessa umr., með afarmiklum hátíðarsvip og innilegri sannfæringu, að það væri vitanlega mesti misskilningur, að þetta frv. væri á nokkurn hátt sett til höfuðs ráðningarskrifstofu, sem Rvíkurbær hefir komið upp. En það hefir nú samt komið glögglega fram við umr. hér og m. a. af þeim hita, sem hefir verið í hv. 2. þm. Reykv., þegar hann hefir viljað ræða þetta mál, að frv. er eingöngu borið fram til þess að sölsa undir sig þetta vald, sem bæjarstj. Rvíkur ber með réttu, til þess að sósíalistar í Rvík fái einnig í þessu máli öllu ráðið.

Ég veit það vel, að hv. 1. landsk. skilur það, hvert stefnir með þessu frv., þó að hann sé að halda því fram, að hér sé ekki um neitt gerræði að ræða gegn Rvík. Þar talar hann gersamlega gegn betri vitund.

Sumir sósíalistar hafa viljað láta skína í það við þessar umr., og hv. þm. V.-Ísf. með þeim, að það kenndi einræðis um úrslit þessa máls hjá bæjarstj. Rvíkur. Ég vil benda þeim á það, að hér er verið að ræða um það, hver eigi að hafa yfirstj. þessa máls. Sósíalistar og þeirra fylgifiskar þykjast krefjast þess, að það verði menn úr báðum aðalflokkunum. Ég vil þá vekja athygli þeirra á því, að eins og málum er skipað í Rvík nú, þá er yfirstj. þessa máls í höndum bæjarráðs Rvíkur, þar sem báðir flokkarnir eiga sína fulltrúa. Sósíalistum í bæjarstj. er því fullkomlega kleift að fylgjast með í því, sem gerist í þessum málum í Rvík. Þeir hafa vitanlega sem bæjarráðsmeðlimir hvenær sem er aðgang að forstöðumanni þessarar skrifstofu og geta krafið hann sagna um það, sem fram fer þar. Einnig af þessari ástæðu er frv. því óþarft.

Það er einkennilegt að athuga það, hvað þeir menn, sem telja sig hér á Alþ. sérstaklega fulltrúa sveitanna, eru ginkeyptir fyrir því nú, að taka á ríkið þau útgjöld, sem Rvíkurbær vill af fúsum vilja inna af hendi. Ég minnist þess frá því eina þingi, sem ég hefi verið á áður, að þá var stundum svo sterkt kveðið að orði, að það væri hrein og bein óhæfa, að ríkið væri látið taka á sig útgjöld, sem að réttu lagi ættu að hvíla á Rvík. Þess vegna er það einkennilegt, að í þessu tilfelli, þar sem bæjarstj. í Rvík er fús til að standa undir öllum þeim kostnaði, sem af þessari skrifstofu leiðir, skuli fulltrúar sveitanna ólmir vilja leggja þann kostnað á ríkið.

Hv. þm. Hafnf. taldi frv. mjög sanngjarnt. Hann hefir sennilega tryggingu fyrir því, að þar sem hann er pólitískur samherji hæstv. atvmrh., þá sé bæjarstj. Hafnarfjarðar engin hætta búin, að hún verði skylduð til að koma þessari skrifstofu á stofn hjá sér. En það væri gaman að vita, hvort hann álítur, að það sé rétt af þinginu að ráðast yfirleitt inn á þau svið, þar sem bæjar- og sveitarstj. eiga að ráða. Það væri gott að fá yfirlýsingu frá hv. þm. um það, hvort hann vill hafa þetta svo í framtíðinni.

Þá held ég, að ég verði að snúa mér að hv. 2. þm. Reykv. Hann á þess nú ekki kost að tala aftur, en ég veit, að hv. 1. landsk., sem talar hér fyrir hönd sósíalista, mun taka á sig að svara fyrir hann. Hann hefir hvort sem er svo oft áður orðið að óhreinka sig á að standa í ýmsum verkum fyrir hann og verja rangan málstað fyrir hann.

Hv. 2. þm. Reykv. segir, að sjálfstæðismenn séu í minni hl. hér á þingi, og því verði þeir að sætta sig við, að ýms l. verði sett á móti þeirra vilja. Það hefir nú verið bent á það, á hvern hátt meiri hl. sé fenginn og hve sterkur hann sé. En ég vil minna á það, að það er ekki rétt samkv. úrslitum kosninganna, að sósíalistar ráði öllu í þessu þjóðfélagi. Langmestur hluti þeirra, sem kusu Framsóknarflokkinn, hefir ekki ætlazt til, að sá flokkur gengi óskiptur sósíalistum á hönd og léti þá eina öllu ráða. Framsóknarmenn svíkja daglega þær yfirlýsingar, sem þeir gáfu kjósendum sínum í vor. Það væri því ástæða til að rjúfa nú þing svo að þjóðin sjálf megi skera úr því, hvort stefna sósíalista á hér ein öllu að ráða, eins og hefir verið hér á Alþ. undanfarna daga og eins og á að knýja hana í gegn á þessu þingi. Ég hygg, að meiri hl. þeirra bænda, sem kusu framsóknarmenn í vor, óski ekki eftir þeirri aðferð, því að hingað til hafa þeir ekki óskað þess, að sósíalistar væru einráðir og alvaldir í þessu landi. Hvaða ástæðu hafa bændur landsins í þessu tilfelli til að óska eftir því, að úr ríkissjóði verði tekið fé til að miðla vinnu milli íbúanna í kaupstöðum landsins? Mér þykir það einkennileg ósk frá bænda hálfu. Þeir hafa aldrei verið að þessu spurðir, og þeir framsóknarmenn, sem eru ekki hreinir sósíalistar eins og t. d. hæstv. fjmrh., hafa aldrei látið skína í slíkt á sínum framboðsfundum.

Þá skal ég víkja að þeim persónulegu aðdróttunum, sem hv. 2. þm. Reykv. hefir látið falla í minn garð út af því, hvernig væri farið með vinnu hjá Kveldúlfi. Hv. þm. G.- K. hefir svarað fyrir sig, en ég vil líka hreinsa fyrir mínum dyrum.

Ég læt í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. forseti skyldi minna hv. 2. þm. Reykv. á, hversu hann leyfði sér að blanda inn í þessar umr. málefni, sem ekkert kom þessu við. Það er leiðinlegt, þegar slíkt kemur fyrir, og ekki til þess fallið að auka virðingu þjóðarinnar fyrir þinginu, þegar persónulegt hnútukast, eins og hann gaf tilefni til, á sér stað innan þingsins. Annars vil ég segja honum það, að hvenær sem hann kemur með persónulegar aðdróttanir í minn garð, þá mun ég svara honum fullum fetum. Hann má vita það, að enn er hann ekki búinn að svínbeygja svo andstæðinga sína, að þeir þori ekki að svara honum á viðeigandi hátt.

Þá vil ég víkja að ráðningu á skip Kveldúlfs. Hjá því fél. gildir sú skynsamlega regla, að skipstjórar ráða að langmestu leyti, hverjir ráðnir eru. Forstjórarnir hafa lítið um það að segja. Ef hv. þm. vildi athuga það af örlítilli skynsemi, mundi hann sjá, að það er ekki svo auðvelt að nota þetta sér til pólitísks framdráttar. Honum ætti þá að vera það ljóst, að það getur bakað viðkomanda pólitískt tjón, að ráða menn í skiprúm, þar sem fyrir hvern einn, sem væri hægt að ráða, yrði e. t. v. að neita mörgum tugum manna. Flokksforingi hv. 2. þm. Reykv., hv. 4. landsk., sem glímdi við mig í kosningunum í vor, leyfði sér að bera þetta fram á fyrsta fundinum, sem við héldum. En hann var það hygginn, að hann gerði það aldrei aftur, því að hann sá, við hver rök það hafði að styðjast.

Hv. þm. G.-K. hefir vikið að því, hve lítilfjörleg og fá dæmi hv. þm. gat leitt fram sínu máli til stuðnings hjá fyrirtæki, sem er búið að starfa í 25 ár og hefir mestan þann tíma verið stærsta atvinnufyrirtæki þessa lands. En þessi hv. þm., ástvinur alþýðunnar, sem er kunnari að því að selja olíu okurverði en að veita atvinnu í landinu, hann hefir þó ekki með öllu getað komizt hjá að veita einhverja örlitla atvinnu. En þeirri atvinnu hefir verið þannig miðlað, að þar hefir pólitíkin verið látin ráða. Ég vil minna hann á það, hvernig hann ekki alls fyrir löngu flæmdi mann frá bílkeyrslu hjá benzínsölu sinni fyrir það, að hann var pólitískur andstæðingur. Þetta var bláfátækur fjölskyldumaður, sem sakir kunningsskapar við einn verkstjóra hins útlenda auðfélags, sem hv. 2. þm. Reykv. veitir forstöðu hér á landi, hafði stöku sinnum fengið að skjótast með olíusendingar. En þegar þessi hv. þm., sem má vera að flestu öðru fremur en að athuga kjör þeirra, sem vinna við þetta atvinnufyrirtæki, komst að þessu, bannaði hann að taka þennan mann til keyrslu framar, og svo tók það hálfan mánuð fyrir þennan fátæka bifreiðarstjóra að fá sín vesælu vikulaun útborguð hjá þessum ríka manni. Hvað var þetta, ef ekki pólitík? Þetta ætti hv. þm. að athuga, áður en hann ber andstæðingum sínum það á brýn, að þeir láti pólitík ráða við úthlutun atvinnu.

Svo lét þessi nýi og sjálfsagði bændaforingi Íslands sér sæma að halda því fram, að atvinnurekendum landsins kæmi það ekkert við, hvaða menn þeir hefðu í vinnu. Þetta voru hans óbreytt orð. Ég vil nú mælast til þess, að þessi hv. þm. taki sér ferð á hendur kringum land, fari helzt inn á hvern bóndabæ og skýri bændum frá hinni nýstárlegu kenningu, að það sé skoðun sín og stj., að héðan í frá ættu bændur engu um það að ráða, hvaða menn þeir veldu til að fara með atvinnu á þeirra heimilum. Ég vil mælast til þess, að hann komi sem víðast við, því að hinn pólitíski árangur af þeirri för mundi eflaust verða sá einn að fækka kjósendum þess flokks og þeim þm., sem nú hafa gengið sósíalistum á hönd.