12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

7. mál, gengisviðauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég á brtt. á þskj. 758. Þessi brtt. er í sambandi við það, að það varð að samkomulagi milli stjórnarflokkanna að stuðla að því, að sú hækkun á benzínskatti, sem ráðgerð var, næði ekki fram að ganga, og er þessi brtt. flutt til þess að vega upp á móti þeim tekjumissi, sem við það verður. Til þess að þingheimur geti áttað sig á því, hvers vegna þessi brtt. er flutt, þá skal ég gera grein fyrir því, hvernig þessi mál eru eins og nú standa sakir.

Eins og menn kannske muna, þá er hallinn á fjárl. eins og þau eru núna 1 millj. 790 þús. kr., og þarna koma til viðbótar 150 þús. kr., þar sem niður fellur útflutningsgjald, sem því nemur. Þá er hallinn á fjárl. 1 millj. 940 þús., kr. Móti þessu kemur svo tekjuaukning af 1. um tekju- og eignarskatt, sem nemur 850 þús. kr. Við þetta minnkar hallinn niður 1 millj. 90 þús. kr. Svo er ætlazt til, að af tollabreyt. fáist 400 þús. kr. tekjuaukning. Þá er ætlazt til, að af þeirri breyt., sem samþ. er á l. um einkasölu á áfengi og l. um einkasölu á eldspýtum og vindlingapappír, fáist um 100 þús. kr. Svo er gert ráð fyrir, að fáist 340 þús. kr., ef þessi brtt. verður samþ. Þá eru komnar þarna um 1700 þús. kr. til að vega upp á móti hallanum á fjárl. Þá vantar 240 þús. kr. til þess að jöfnuður fáist áður en gengið er til 3. umr. fjárl. Ég hefi viljað gera ráð fyrir því, að frv. um stimpilgjald ásamt heimildum til einkasölu, sem hér liggja fyrir þinginu, myndu, ef þau verð, samþ., nægja til þess að jafna hallann, jafnvel þó að gert sé ráð fyrir nokkurri hækkun á útgjaldalið fjárl. við 3. umr.

Þessi brtt á þskj. 758 er borin fram til þess að jafna hallann á fjárl., og er gert ráð fyrir, að hún veiti tekjuaukningu, ef hún verður samþ., sem nemur 340 þús. kr. Brtt. fer fram á 25% viðauka, sem lagður sé á aukatekjur ríkissjóðs I.—VI. kafla, þær, sem taldar eru í lögum nr. 75 27. júní 1921. Undanþegnar eru aukatekjur í VII. kafla, en þar er aðallega um afgreiðslugjöld að ræða. Viðaukinn er því á helming aukateknanna 270 þús. kr., og 25% af því verða um 66 þús. kr. Svo er gert ráð fyrir 25% viðauka á stimpilgjaldi, og mun hann eftir áætlun fjárl. gefa um 100 þús. kr. Þá er gert ráð fyrir 25% viðauka á verðtolli, að undanskildum verðtolli af vörum þeim, er greinir í l. nr. 11 2. júní 1933, en þau eru viðvíkjandi verzlunarsamningum við Bretland og auglýsingu í sambandi við þá, sömuleiðis á ekki að greiða viðauka á verðtolli á skófatnaði, öðrum en lakk-, flos- og silkiskóm, og olíufatnaði. Ef miðað er við innflutninginn 1932 og áætlun fjárl.frv., þá yrði þessi viðauki 180 þús. kr., og verður þá allur viðaukinn milli 340 þús. og 350 þús. kr. samkv. till.

Um þennan verðtoll vildi ég ennfremur segja það, að með því að undanskilja verðtoll samkv. 1. frá 1933, þá verður undanþeginn hinn ódýrari varningur, svo að viðaukinn á verðtollinum nær ekki til hinna nauðsynlegustu vara.

Þá vil ég minnast á annan lið viðaukans, en hann er á stimpilgjaldi, en sá viðauki nær ekki til greiðslna fyrir embættisverk, sem framkvæmd eru, eða fyrir skjöl, sem út eru gefin vegna framkvæmda á lögum nr. 78 19. júní 1933, um Kreppulánasjóð. Það er víst, að á næstu árum verður mikið gefið út af skjölum vegna framkvæmdar Kreppulánasjóðsl., og það er ekki sanngjarnt, að sú skjalaútgáfa verði fyrir þessu gjaldi. Ég get svo látið útrætt um þessa brtt. Ég hefi nú gert grein fyrir því, hvernig þessi mál standa, og vænti því, að hv. d. sjái, að þörf er fyrir þennan tekjuauka, og samþ. því brtt.