25.10.1934
Neðri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

26. mál, vinnumiðlun

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Mér finnst, að tveir síðustu ræðumenn, hv. þm. Snæf. og hv. 6. þm. Reykv., hafi nú gert hv. 2. þm. Reykv. þau skil, að ég þurfi ekki þar við að bæta. Get ég því slegið striki yfir allt, sem ég ætlaði að honum að víkja, en út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði í gær, vil ég nú gefa örlitlar upplýsingar.

Hæstv. ráðh. bar það á mig, að ég færi ekki rétt með, þegar ég skýrði frá því í d., að jafnaðarmannaforingi Dana, Stauning, hefði gefið út l. eða beitt sér fyrir, að l. hefðu verið gefin út af danska þinginu til að fyrirskipa lögþvingaðan gerðardóm í vinnudeilum. Hæstv. ráðh. bar brigður á, að þetta væri satt. En ég get sagt hæstv. ráðh. það fyrir satt, að ég fer hér ekki villur vegar, og sýnir það þá, hvílíkt djúp er staðfest á milli þessa reynda jafnaðarmannaforingja í Danmörku og hv. 2. þm. Reykv., sem hefir lýst því yfir, að ef slík fyrirmæli yrðu lögfest, mundi hann beita sér fyrir uppreisn til að sjá svo um, að þeim l. yrði ekki hlýtt.

Þessi l. munu hafa verið sett í sambandi við kaupdeilu í sláturhúsum í Danmörku, þar sem þjóðinni þótti voði búinn í verzlun og viðskiptum, ef það næði að festa rætur. Þá beitti forsrh. Dana sér fyrir því, að samþ. voru í mesta skyndi l. um lögþvingaðan gerðardóm, sem var skipaður þremur dómurum, og þeim dómi varð að hlíta. Þar með var bundinn endi á þessa kaupdeilu, sem forsrh. taldi þjóðinni stafa svo mikill voði af.

Ég þarf svo ekki að taka fleira fram í sambandi við ræðu hæstv. ráðh., nema ef vera skyldi að bæta við það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í sambandi við þau ummæli, sem komu frá hv. 2. þm. Reykv. um Svein Halldórsson í Bolungavík. Það er alveg eins og hv. 6. þm. Reykv. upplýsti, að þessi maður hefir verið og er, eftir því sem ég bezt veit, ennþá sjálfstæðismaður. Er þá þar með hruninn allur grundvöllurinn undan þeim árásum, sem gerðar hafa verið á mig í sambandi við þennan mann. Ef þessar upplýsingar standast ekki, er það leiðinlegast fyrir manninn sjálfan, því að eins og hv. 6. þm. Reykv. upplýsti, fór hann ekki dult með það 1933 og við kosningarnar 1934, að hann væri ákveðinn sjálfstæðismaður og stuðningsmaður Jóns Auðuns þar í kjördæminu.

Ef sú staðreynd, að mér tókst ekki, þrátt fyrir viðleitni mína, að útvega þessum manni atvinnu síðasta sumar, hefir orðið til þess, að hann hefir skipt um skoðun, þá er ekkert um það að segja, nema að það er leiðinlegast fyrir hann sjálfan, en ég ber honum það ekki á brýn hér, þar sem jafnsterk rök hafa verið borin fram eins og hv. 6. þm. Reykv. gerði, þar sem hann sagði frá því, að þessi maður hefði lýst því yfir í viðurvist margra manna tveimur dögum fyrir kosningar, að hann væri jafngóður sjálfstæðismaður og hann hefði verið að undanförnu.