31.10.1934
Neðri deild: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Það er miklu eðlilegra að ræða þetta mál á björtum degi heldur en á nóttu. En ég vildi gjarnan vísa til þeirrar ræðu, sem ég hélt hér í nótt um þetta mál. Af því að í þeirri ræðu var margt tekið fram, sem allir hv. þdm. hefðu helzt þurft að hlusta á, en hins vegar voru þá ýmsir hv. þm. farnir af fundi, þá skal ég eftir tilmælum hæstv. ráðh. endurtaka nokkuð af því nú, sem ég sagði þá.

Eins og tekið hefir verið fram, eru brtt. fluttar af minni hl. allshn., og er þar um gagngerðar brtt. á frv. að ræða. Að efni til er breyt. í því fólgin, að minni hl. n. leggur til, að sérstök skrifstofa verði sett á stofn, sem nefnist vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins. Þessi till. er til orðin vegna þeirrar afstöðu, sem hæstv. atvmrh. og fleiri hv. þm. tóku til þess máls. Þeir studdu sem sé frv. um það, að ríkisstj. hefði meirihlutavald í sambandi við úthlutun atvinnubótavinnu. Þeir studdu þennan málstað sinn með því, að stj. þyrfti að hafa fullt vald yfir úthlutun þess fjár, sem ríkissjóður legði fram til atvinnubótavinnu. Ég vil nú ekki lesa það upp hér enn á ný, sem um þetta hefir verið sagt, en vil leyfa mér að vísa til fyrstu ræðu, sem hæstv. atvmrh. hélt um málið, og til ræðu hv. 2. þm. Árn., þar sem þeir færa rök fyrir sinni afstöðu til málsins með því að segja, að það sé rétt og sanngjarnt, að ríkissjóður ráði, á hvern hátt sé úthlutað þessu fé til atvinnubóta, sem nú er ákveðið í fjárl., að verði um ½ millj. kr. Ég vil vísa til ræðu, sem hv. 2. þm. Árn. hélt um málið nýlega. Þeir rökstyðja sína atkvgr. í málinu með því, að rétt sé, að ríkissjóður ráði, hvernig úthlutað er því fé, sem ríkið leggur fram til atvinnubóta. Bent hefir verið á, að á fjárl.frv. er nú áætluð ½ millj. til þessara hluta.

En hitt er ekki síður sanngjarnt, að kaupstaðirnir ráði, hvernig ráðstafað er fé því, sem þeir leggja fram.

Till. á þskj. 222 gengur í þá átt, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins hafi meirihl.vald til að ákveða úthlutun atvinnubótafjár, en jafnframt er kaupstöðunum heimilt að stofna ráðningarskrifstofur.

2. liður brtt. er upptalning á hlutverkum vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins.

Flestir þessir undirliðir eru svipað orðaðir og í 2. gr. frv., sem samþ. var hér við 2. umr. Við höfum gert það að till. okkar, að Alþýðusambandið tilnefni einn mann, atvinnurekendur annan, en atvmrh. þann þriðja, er skal vera formaður. Jafnmargir varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Með þessu er það tryggt, að atvmrh. geti ráðið oddamanninum. Allur kostnaður við vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins á að greiðast úr ríkissjóði, og er það sanngjarnt, þar sem til skrifstofunnar er aðeins stofnað með tilliti til fjár, er ríkið leggur af mörkum.

Þá er 7. brtt. Þar stendur, að kaupstöðum skuli heimilt að stofna sérstakar ráðningaskrifstofur. Er tekið fram hlutverk þeirra: Þær eiga að veita verkamönnum og atvinnurekendum milligöngu um vinnusölu og vinnukaup, miðla vinnu milli bæjarbúa, úthluta vinnu, sem kostuð er af bæjarsjóðum, svo og annari vinnu, er skrifstofunni kann að vera falið að úthluta, framkvæma atvinnuleysisskráningar.

Þetta verða nú bæjarsjóðir að sjá um, því að gert er ráð fyrir, að allur kostnaður við ráðningarskrifstofurnar í kaupstöðum sé greiddur úr bæjarsjóðum.

Af þeim 3 mönnum, sem eiga að vera í stj. ráðningarskrifstofunnar, skal einn útnefndur af bæjarstj., og er hann formaður, annar af verkalýðsfél. innan Alþýðusambandsins eða fulltrúaráði þess og hinn þriðji af atvinnurekendum. Með því er tryggt, að meiri hl. vald bæjarstj. ráði oddamanni. Stj. skrifstofunnar hefir vald til að ráða forstöðumann skrifstofunnar, svo og aðstoðarmenn, ef þurfa þykir. Þessar skrifstofur standa undir vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins, en hafa þó ákveðið starfsvið. Viðkomandi bæjarstj. hefir fullan íhlutunarrétt um stj. skrifstofunnar, þar sem hún skipar oddamanninn.

Ég tel Alþ. geta fellt sig við þessar brtt. Með vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins er ríkisstj. tryggður íhlutunarréttur um útbýtingu atvinnubótafjár. Í ræðum sínum við 1. og 2. umr. málsins færði hæstv. atvmrh. þau rök fyrir framkomu frv., að sanngjarnt væri, að ríkissjóður hefði íhlutunarvald um úthlutun atvinnubótafjár. Með þessum brtt. er þetta tryggt, en þó gætt réttar viðkomandi bæjarstjórna, sem samkv. lýðræðisreglum eiga að hafa vald yfir úthlutun þess fjár, er þær láta af hendi.

Þessar till. eru fram komnar til að leysa málið með sanngirni og leiða það út úr þeim ógöngum, sem ríkisstj. og allshn. hafa leitt það í. Hæstv. stj. og hv. n. vita, að ef ganga á áfram þá leið, að hér sé sett upp skrifstofa, er taki sér það meirihl.vald, sem bæjarstj. ber að réttu lagi, þá eru þegar komin illindi í málið, og skrifstofan nær ekki tilgangi sínum. Vona ég því, að hæstv. atvmrh. taki fullt tillit til þessara till. og samþ. þær, í samræmi við þau orð, sem hann hefir áður viðhaft.