31.10.1934
Neðri deild: 24. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Ég veit, að hæstv. ráðh. fyrirgefur mér, þó ég hafi lagt fyrir hann gildru, og sannleikurinn er sá, að ég gerði það til að komast að því, hvort hann hefði lesið brtt. Gildran var fólgin í því, að ég spurði hann, hvort kostaði meira ein skrifstofa eða tvær. Ég orðaði þetta á þann hátt, að gera samanburð á, hver kostnaður yrði af 1 skrifstofu með 5 manna stj. eða 2 skrifstofum með 6 manna. Þegar athugað er frv., sést, að hæstv. ráðh. hefir gert ráð fyrir 5 manna stj. í hverjum kaupstað eða hverri skrifstofu.

Nú eru 8 kaupstaðir á landinu, 8X5 er sama sem 40 menn í atvinnu við stj. þessara stofnana, en ef till. okkar hv. þm. Snæf., sem er samhlj. till. hv. þm. V.-Ísf., yrði samþ., þá sitja í stjórnum bæjarskrifstofanna 3X8, eða 24 menn + 3 menn í stj. vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins = 27 menn alls. Eftir okkar till. mætti því spara kaup handa 13 manns. Eftir till. okkar ætti ríkið ekki að greiða kaup nema 3 mönnum, en eftir frv. 1/3 af 40 mönnum = 131/3 manni. Alveg sama er útkoman með tilliti til kostnaðar bæjarfél. Eftir okkar till. koma laun 3 manna í stað launa 2/3 af 5 mönnum samkv. frv., sem gerir 3 og 1/3 mann. Ég hafði gaman af að leggja þessa snöru fyrir þennan hæstv. ráðh., og hann hangir nú fastur í snörunni, því hann hefir sannað með ræðu sinni, að hann hefir ekki lesið brtt., eins og hv. þm. Snæf. hélt fram, því annars hefði hann hlotið að sjá, að það er minni kostnaður að greiða laun til 27 manna heldur en til 40 manna.