12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

7. mál, gengisviðauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hefi auðvitað ekkert á móti því, að málinu sé frestað og það tekið til athugunar af fjhn., og vona ég, að hún geti athugað það í fyrramálið.

Ég get ekki fallizt á það, að þetta sé óviðfelldið form, þar sem þetta á að koma í staðinn fyrir annan skatt, sem flokkarnir hafa komið sér saman um að láta ekki ganga fram. Ég veit ekki betur en þessi aðferð hafi tíðkazt í þinginu, þó að ég af skiljanlegum ástæðum hafi ekki getað fylgzt með sögu þingsins. En mér hefir samt skilizt, að þessi aðferð hafi ekki verið talin óviðfelldin, og var t. d. 1933 smeygt inn í samskonar frv. viðauka á tekju- og eignarskatti. Þetta er því hvorki óvanalegt né óþinglegt, þó ég ætli mér ekki að fara út í deilur um það.