06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

26. mál, vinnumiðlun

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. talaði um, að ríkið verði að hafa eftirlit með því fé, sem það veitir til atvinnubóta. Það eftirlit er ósköp auðvelt, og ef ríkisvaldið ætlar með ákvæðum þessa frv. að koma því til vegar fyrst og fremst, þá vil ég segja, að hér sé allt of stórt bákn á ferðinni. Til þess þyrfti ekki að koma með svo róttækt frv. sem þetta. Bæjarstj. á hverjum stað, þar sem fé er úthlutað til atvinnubóta, getur unnið öll þau störf, sem hæstv. atvmrh. tiltók í síðari ræðu sinni, og það án þess að það þurfi að kosta nema lítið. Atvinnubótaféð er hvort sem er ekki ætlað skrifstofumönnum, heldur er miklu eðlilegra, að það gangi til þeirra, sem eru atvinnulausir. (Atvmrh.: Það er ekki heldur ætlazt til annars). Eitthvað hlýtur það að kosta bæjarfél. að hafa þessar skrifstofur.

Ein ástæða hæstv. atvmrh. fyrir frv. var sú, að þessi mál væru komin í glundroða hér í Rvík. Mér er ekki alveg kunnugt um þessa vinnumiðlunarskrifstofu, sem hann segir, að verklýðsfélögin hafi sett upp. Ég hefi spurzt fyrir um hana, en enginn hefir enn getað sagt mér, hvar hún starfaði eða hvernig. Ég verð því að halda, að hún sé ekkert annað en pólitísk bóla, sem þotið hafi upp eftir að meiri hl. bæjarstj. Rvíkur ákvað að setja upp ráðningarskrifstofu. Sérstaklega verður þetta skýrt, þegar litið er á það, hvernig skipa á í stjórnarn. Með skipun oddamannsins er atvmrh. tryggt meirihlutavald um störf þessara skrifstofa. - Mér finnst blærinn yfir löggjafarstarfinu á þessu Alþ. vera á sama veg og störf þessara skrifstofustjórna eru fyrirhuguð í frv., eða eins og þó að stjórnarflokkarnir ættu einir öll þingsætin. Ég er ekki í vafa um, að atvmrh. mundi skipa þannig í stjórn þessara vinnumiðlunarskrifstofa, að þær væru sama sem einlitar.

Ég hefi alls enga trú á því, að vinnumiðlunarstörf hér í Rvík fari að neinu leyti betur úr hendi, þó að frv. verði samþ. Ekki sé ég heldur neitt athugavert við það á neinn hátt, þó að ráðningaskrifstofunni, sem bæjarstj. Rvíkur fyrirhugaði, væri leyft að sýna, hvort hún gæti ekki fullnægt allri vinnumiðlunarþörf hér, áður en hún er fyrirdæmd. Ég álít, að á meðan sú stofnun er óreynd, eigi ekki að láta ríkið leggja sósíalistum til þann pólitíska herkostnað, sem þeir þurfa til þess að drepa hana.