06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

26. mál, vinnumiðlun

Magnús Jónason [óyfirl.]:

Ég skil ekki eftir orðalagi frv., hvernig það er mögulegt að setja slíkar skrifstofur á stofn nema með töluverðum kostnaði. Í 4. gr. frv. segir: „Stjórn vinnumiðlunarskrifstofu ræður forstöðumann skrifstofunnar, svo og aðstoðarmenn, ef þurfa þykir“. Það er ekki hægt að ráða menn í starf, nema borga þeim kaup fyrir það. Það er líka alkunnugt, að ef slíkar skrifstofur eru settar á stofn, þá þarf, þó að þær hafi lítið að gera, að hafa þær opnar vissan tíma, og þá þarf auðvitað einhver að vera þar við, ef einhver kynni að koma til þess að fá upplýsingar þar. Þegar hæstv. atvmrh. segir, að það verði enginn kostnaður utan Rvíkur, þá skil ég það svo, að það eigi ekki að setja slíkar skrifstofur á stofn utan Rvíkur. Tilgangurinn er því enginn annar en sá, að ónýta tilraun bæjarstj. Rvíkur í þessu efni.

Jafnaðarmenn vilja því ekki skrifstofur, sem miðla vinnu, heldur stofnun, sem þeir geta haft pólitísk not af. Hitt er annað mál, að það er gott að hafa þessa heimild atvmrh. til þess að stofna vinnumiðlunarskrifstofu í öðrum kaupstöðum, ef bæjarstj. þeirra skyldu taka upp á því að setja á stofn skrifstofur, sem Alþýðufl. teldi hættulegar fyrir sálir verkamannanna.

Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri óvíst, hver yrði atvmrh. í framtíðinni. Það er auðvitað með þá ráðh.stöðu eins og hinar ráðh.stöðurnar, að þær ganga milli flokka. Hv. 4. landsk. sagði í ræðu, sem hann hélt í þessari hv. d., að það kæmi aldrei til, að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist til valda. Og í þeirri von mun þetta frv. vera fram borið, að hann komist ekki til valda fyrst um sinn.

Það er svo, að í niðurjöfnunarn. er skattstjórinn oddamaður. En undan því fyrirkomulagi hefir verið kvartað, og ef rétt væri, ætti bæjarstj. að skipa niðurjöfnunarn. þannig, að hún væri rétt mynd af bæjarstj. En þessu var breytt til þess að stj. gæti haft meiri hl. í niðurjöfnunarn. Annars er ekki vert að skattyrðast hér við hæstv. atvmrh. því hann má ekki vera að því að vera hér í d.