08.10.1934
Neðri deild: 4. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1450 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

29. mál, markaðs- og verðjöfnunarsjóður

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Af hinum nýju samningum vorum við Spánverja hefir það leitt, að saltfisksútflutningur þangað hefir verið takmarkaður til stórra muna. Fyrrv. ríkisstj. leit því svo á, að óhjákvæmilegt væri að hafa eftirlit með saltfisksútflutningi einstakra manna, og gaf út bráðabirgðalög um það efni 25. maí síðastl. Það varð fljótlega ljóst, að óhjákvæmilegt væri að hafa fé til umráða til markaðsleitar, verðjöfnunar o. fl., og var því það ráð tekið að binda útflutningsleyfin því skilyrði, að útflytjendur greiddu ákveðið gjald af hverri smálest útflutningsfiskjar í þessu skyni. Þessu var slegið föstu með bráðabirgðalögum, er nýja stjórnin gaf út 20. ágúst í sumar. Var þar ákveðið, að útflytjendur skyldu greiða í sjóðinn 20 kr. á smálest af óverkuðum fiski, sem út er fluttur, en 3 kr. til jafnaðar á skippund af verkuðum fiski nema af ufsa, keilu og úrgangsfiski. Þar sé gjaldið 2 kr. á skippund.

Með sérstakri reglugerð verður nánar kveðið á um skiptingu gjaldsins á hinar ýmsu tegundir af verkuðum fiski, svo að það nemi 3 kr. á smálest til jafnaðar, og ennfremur um stjórn sjóðsins. Stj. mun innan skamms fara fram á við stjórnmálaflokkana í þinginu, að þeir bendi á menn í sjóðstjórnina, og mun fara eftir till. þeirra.

Ég vil taka það skýrt fram, að gjald það, sem hér ræðir um, fer á engan hátt í ríkissjóð, heldur í sérstakan sjóð, sem varið verður í þágu fiskverzlunarinnar sjálfrar, til markaðsleita o. s. frv.