06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

26. mál, vinnumiðlun

Magnús Guðmundsson:

Það er til lítils að vera að tala hér, þar sem engir eru við af stjórnarflokkunum nema embættismenn d. Bæði forseti og l. varaforseti eru m. a. fjarverandi. Það er því ekki til neins að vera að ræða málin hér, enda er öllu til lykta ráðið utan þings. Það er því alveg sama, hvort maður er að rausa hér eða ekki. En ég ætla nú samt að svara hæstv. atvmrh., þó hann sé farinn í burt. Hæstv. ráðh. sagði, að kostnaður yrði ekki mikill. En það kemur í ljós síðar. Það er oft svo, að í fyrstu er kostnaðurinn áætlaður svo og svo lítill, en þegar til framkvæmda kemur, þá sést, að áætlunin var alltof lág. Ég er sannfærður um, að kostnaðurinn verður ekki undir 30 þús. kr. á öllu landinu, ef skrifstofa er sett í öllum kaupstöðunum, og hann getur orðið meiri. Ég hafði ekki tekið eftir því, að síðast í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir að fela sérstökum fulltrúa í atvmrn. öll störf, sem lúta að vinnumiðlun milli kaupstaða og héraða. Þar er víst eitt nýtt embætti í viðbót. Ég skal í þinglokin telja upp öll þau nýju störf, sem hefir verið fitjað upp á á þessu þingi. Ég skal svo ekki tefja umr. lengur, og nú getur hæstv. forseti slítið fundi án þess að láta ganga til atkvæða.