20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

29. mál, markaðs- og verðjöfnunarsjóður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég er alveg blindþreifandi fullur af aðdáun á því freyðandi frjálslyndi og framúrskarandi réttlæti, sem nú er farið að skjóta upp kollinum hjá hv. meiri hl. — stjórnarflokkunum hér á Alþingi. Ég minnist þess, er ég fór fram á það í byrjun þings, hér í þessari hv. þd., að fjölgað væri um 2 menn í landbn., svo að Bændafl. mætti koma einum manni í n., en því var algerlega synjað. Og síðan hefir það gengið þannig það sem af er þessu þingi, að hv. stjórnarflokkar hafa ekki viljað taka hið minnsta tillit til Bændafl., þegar um skipun nefnda hefir verið að ræða, eða áhrif á mál og störf utanþings. — En hér liggur allt í einu fyrir brtt. frá hv. sjútvn. á þskj. 461, þar sem lagt er til, að skipuð verði 9 manna stjórn fyrir markaðs- og verðjöfnunarsjóð saltfiskjar, og 8 af þessum mönnum á þingið að skipa samkv. tilnefningu fjögurra þingflokka, þeim nú eru, þannig að hver þingflokkur tilnefnir 2 menn. Bændafl. líka. Og þetta er ákveðið af sjútvn. alveg án þess að Bændafl. hafi nokkuð óskað eftir því. Hann hefir alls ekki gert það. Og ég er jafnvel ekki viss um, að hann vilji eiga neinn þátt í þessari sjóðstjórn. Ég vil mega vænta, að þeir menn eða flokkar, sem að þessu hafa staðið, reynist jafnréttlátir í öðrum málum. Hér í þessari hv. þd. fóru nýlega fram umr. um svo kallaða „Rauðku“, og þó að ég sé nú ekkert tiltakanlega skotinn í henni, þá álít ég, að sú n., ef vel væri á haldið, kynni að geta látið eitthvað gott af sér leiða. En það var ekki við það komandi, að Bændafl. fengi skipaðan mann í skipulagsnefndina, og hefði þó vitanlega getað komið til mála, að Bændafl. tæki fremur þátt í einhverjum af þeim málum, sem sú nefnd hefði til meðferðar. (ÓTh: Langar þm. til þess að láta hv. 2. þm. Reykv. teyma sín?). Ég væri til með að hafa taumhald á honum og hv. þm. G.-K. — Annars vil ég vænta, að úr því að slíks frjálslyndis hefir nú loks orðið vart á þessu þingi, sem þessi till. sjútvn. ber vott um, þá eigi það eðlilegar rætur hjá hv. þm. En sumir þeirra hafa sýnt okkur bændaflokksmönnum alveg sérstakan fjandskap. Hinsvegar kærum við okkur ekki svo mjög um að taka þátt í þessari nefnd, það höfum við ekki farið fram á, enda stöndum við fjær því að starfa að þeim málum heldur en ýmsum öðrum, sem við höfum frekar óskað að taka þátt í.

Sem sagt, ég get glaðzt yfir frjálslyndi hv. sjútvn. og verið henni þakklátur, og ég vona, að hún hafi ekki á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneiti hennar krafti.