20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

29. mál, markaðs- og verðjöfnunarsjóður

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Mig furðar stórlega á því, hvað hv. þm. V.-Húnv. sýnir nú óvenjulega mikla hæversku. Það er alveg ný bóla hér í þessari hv. þd. Annars vildi ég aðeins geta þess, að sú brtt., sem hv. þm. var svo þakklátur fyrir, er flutt af hv. sjútvn. í samráði við mig. Og ég veit ekki betur en að hún sé fram komin í samráði við formenn allra þingflokka, einnig form. Bændafl., Þorstein Briem, og hann tjáði sig samþykkan þessari till. Ég verð því að láta í ljós undrun mína á þessum eftirtölum hv. þm. Húnv., eða andmælum hans gegn því, að Bændafl. taki þátt í skipun þeirrar sjóðstjórnar, sem um ræðir í brtt. Ég hefi hingað til álitið hv. þm. sama sinnis og flokksbróður hans, Þorst. Briem, enda þykist ég vita, að við nánari athugun muni hann fallast á þetta með flokksbróður sínum.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að ég get ekki séð, að flokkur hv. þm. hafi undan neinu að kvarta í viðskiptum sínum við aðra þingflokka, eða að hann hafi orðið útundan við skipun manna í aðrar sambærilegar þingnefndir. Ég veit ekki betur en að Bændafl. hafi t. d. fengið að koma sínum fulltrúa í utanríkismálanefnd, og var það ákveðið eftir samkomulagi allra flokka.