20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

29. mál, markaðs- og verðjöfnunarsjóður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætla að sleppa því að svara hv. frsm. sjútvn. og get geymt mér það til annars betri tíma. En hann ætti að fara varlega út í þá sálma, hvenær beri að taka mark á mönnum, enda mundi hann tæplega til kvaddur að skera úr því. Þó að nú megi taka mark á hv. þm., þá hefir oft út af því borið, og skal ég ekki fara lengra út í það nú.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvmrh. sagði, skal ég geta þess, að honum og hv. sjútvn. virðist hafa skjöplazt um tilnefning manna í þessa verðjöfnunarsjóðsnefnd, ef það hefir átt að veru sambærilegt við skipun utanríkismn., því að við kosningu manna í utanríkismn. var m. a. tekið tillit til þess þm., sem er utan flokka, nema það sé undirskilið, að hann eigi að vera formaður í stjórn sjóðsins, og þykir mér ekki fara neitt illa á því, ef svo væri.

Hvort talað hefir verið við form. Bændafl., Þorst. Briem, um skipun sjóðstjórnarinnar, veit ég ekkert um, eða hvort hann hefir verið þessu samþ., en hitt veit ég, að það hefir engin ákvörðun verið tekin um þetta í Bændafl.

En svo er alls ekki hægt að bera þetta saman við utanríkismn. Hér er aðeins verið að skipa stjórn sjóðs, sem á að taka við gjaldi af útfluttum fiski og ráðstafa sjóðnum samkv. fyrirmælum þess frv., sem hér er til umr. Hitt væri miklu nær, að taka skipulagsnefnd til samanburðar við kosningu þm. í utanríkismálanefnd, og heimila öllum þingflokkum á sama hátt þátttöku í henni. En vera má, að hæstv. atvmrh. hafi séð villu sína í skipun þeirrar n. og sé nú á góðum vegi með að bæta ráð sitt og breyta um stefnu í þessu efni. — Hér getur ekki verið um að ræða neina sérstaka hæversku frá minni hálfu, því að ég er venjulega yfirleitt hæverskur í kröfum. En ég vildi aðeins benda á ósamræmið í framkomu hv. stjórnarflokka í þessu máli, borið saman við það, sem komið hefir fram í öðrum málum. Ég er ekki með því að segja, að þeir eigi að láta sömu ósanngirnina ráða hér eins og í öðrum málum, þvert á móti heldur hitt, að hér eigi að vera samræmi á hlutunum.