13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

29. mál, markaðs- og verðjöfnunarsjóður

Thor Thors:

Við hv. þm. Vestm. höfum borið fram brtt. við frv. þetta, á þskj. 559. Hún gengur í þá átt, að í stað þungagjalds sé tekinn ákveðinn hundraðshluti af verðinu. Við töldum hæfilegt að hafa þetta gjald 5%, en nú hefir náðst samkomulag milli allra flokka um að miða gjaldið við 6%, og getum við eftir atvikum fellt okkur við þá breyt. Aðalatriðið var að fá þetta ákveðið sem hundraðshlutagjald, því að þannig kemur það réttlátlegar niður. — Síðari brtt. okkar á þskj. 559, við fyrirsögn frv., get ég líka tekið aftur, samkv. ósk hæstv. atvmrh. Aftur á móti tel ég orðalag fyrri málsgr. 1. gr. ekki nógu nákvæmt. Þar stendur: „Meðan innflutningur á saltfiski er takmarkaður til eins eða fleiri markaðslanda, skal við útflutning fiskjarins“, o. s. frv. Ég ætla að bera fram skrifl. brtt. þess efnis, að í stað „fiskjarins“, komi: saltfisks. Það er meiningin og er rétt, að hún komi ótvírætt fram í orðalagi frv.