21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Frv. þetta er sem kunnugt er flutt af hæstv. stj. og hefir gengið í gegnum hv. Nd. Um meðferð málsins í allshn. þessarar d. er það að segja, að n. klofnaði um það, og hefir minni hl. n. þegar skilað áliti á þskj. 520. Nál. meiri hl. n. er að finna á þskj. 483. Eins og þar má sjá, leggur meiri hl. til, að frv. sé afgr. óbreytt, en ágreiningurinn í n. var aðallega um það, hver skyldi skipa oddamann þeirrar n., sem hafa á störf þessi með höndum. Ég skal játa, að ég hefi ekki kynnt mér rök hv. minni hl. í þessu atriði, þar sem nál. hans var ekki útbýtt fyrr en nú rétt í þessu. Eins og hv. þdm. mun kunnugt vera, er höfuðefni frv. það, að stofnuð skuli vinnumiðlunarskrifstofa í bæjunum. Enginn vafi leikur á nauðsyn þessara stofnana. Reynslan hefir sýnt, að ráðning verkafólks á milli sjávarplássa og sveita er mjög óregluleg, og oftast er það tilviljun ein, hvernig tekst.

En þó að frv. ætlist aðallega til, að þessi starfsemi verði innanbæjar, er næg ástæða til þess, að skrifstofa hafi hana með höndum. Ég játa, að frv. nær ekki til atvinnurekstrar yfirleitt. Það hefir ekki í sér nein ákvæði, sem skylda atvinnurekendur til þess að lúta skrifstofunni á neinn hátt. En þó að þörf væri á slíkri skrifstofu fyrir hinn almenna atvinnurekstur, skal ég ekki fara neitt út í það. Hér í Rvík hefir vinnumiðlun að vissu leyti átt sér stað í nokkur ár, og á ég þar við atvinnubótavinnuna. Í þá vinnu hefir mönnum verið skipt niður eftir því, sem þeir menn, er við það hafa fengizt, álitu réttlátast, og hefir þar að sumu leyti verið farið eftir kunnleika og að sumu leyti eftir upplýsingum frá þeim mönnum, sem vinnunnar leituðu. Ég er þessu kunnugur frá fyrri árum, þó að vinnuúthlutunin væri þá í smærri stíl en nú gerist. Síðustu árin hefir það verið talin sjálfsögð regla, að tveir aðalstjórnmálaflokkar bæjarins legðu til menn til þess að úrhluta þessari vinnu. Það má kannski segja, að það skipti ekki miklu máli, hverjir hafi þetta með höndum, úthlutunin hlyti alltaf að verða háð gagnrýni. En ég held, að menn hafi sætt sig bezt við það að báðir flokkarnir, Alþfl. og Sjálfstfl., ættu fulltrúa við úthlutunarstarfið. En út af þessu var breytt á síðastl. hausti. Fulltrúaráð verklýðsfél. hér í bænum fór fram á við bæjarráð, að fulltrúi frá Alþýðufl. mætti vera einn af þremur við úthlutan vinnunnar, en meiri hl. bæjarráðs neitaði því. Af þessa spratt mikil gremja meðal verkamanna. Þeir óttuðust, að úthlutunin gæti orðið einhliða og hlutdræg, þegar enginn væri af þeirra hálfu við vinnnúthlutunina. Það komu raddir um, að nauðsynlegt væri að setja á stofn upplýsingaskrifstofu, sem jafnframt hefði með höndum gagnrýning á úthlutun vinnunnar og hjálpa atvinnulausum mönnum að fá vinnu og rétta hlut þeirra, sem ranglega yrðu settir hjá af hálfu fulltrúa meiri hl. bæjarstj. Þá var það nýmæli frá hálfu meiri hl. bæjarstj. að setja á stofn vinnumiðlunarskrifstofa í því formi, sem hún er nú. Mér er kunnugt um, hvað var tilefni þeirra framkvæmdar, því að það er í nánu sambandi við málefni, sem stj. Sjómannafél. Rvíkur fjallaði um við borgarstjóra og snerti ráðningu manna hingað til bæjarins. Ég lét þess getið þá í viðtali við borgarstjóra, að þriðja manni viðstöddum, að við teldum brýna nauðsyn á stofnun skrifstofu, sem hefði með höndum úthlutun atvinnubótavinnu og bæjarvinnu. Borgarstjóri var þessu samþykkur, og hann fylgdi hugmyndinni eftir, því að slík skrifstofa er nú komin á fót. En þetta varð svo einhliða á framkvæmdinni, að meiri hl. bæjarstj. skipaði stj. skrifstofunnar eingöngu með sínum flokkslit.

Hitt atriðið sem um var deilt í n., er það, hvernig skipa skuli stj. þeirrar skrifstofu, sem frv. ræðir um. Ríkið sjálft virðist nú vera hér réttur aðili. Það leggur til 1/3 þess fjár, sem til atvinnubóta er varið, og virðist því ekki óeðlilegt, að það hafi af því nokkur afskipti, hvernig skrifstofunni er stjórnað. Er því gert ráð fyrir, að atvmrh. skipi einn mann í stj. skrifstofunnar. Það virðist ekki ósanngjarnt, að ríkið hafi nokkra íhlutun um þetta, því að vel getur komið til mála, að beita þurfi vinnukraftinum út fyrir bæjarfél., og inna vinnu af hendi, sem ríkinu einu viðkemur. Þá virðist og atvinnurekendur réttur aðili, að svo miklu leyti, sem þeir vilja nota skrifstofuna. Þá er ætlazt til, að bæjarstj. skipi 2/5 stjórnarinnar og verkalýðurinn 1/5. Því hefir verið borið við, að með þessum ákvæðum væri verið að ganga á rétt bæjanna, en ég sé ekki, að því sé til að dreifa hér. Bærinn hefir þegar gengið inn á þessa braut áður. Það má kannske til sanns vegar færa, að tekinn sé réttur af meiri hl. bæjarstj., sá réttur, sem hana hefir sjálfur úthlutað sér, að ráða einsamall stj. skrifstofunnar. Ég er hér á gagnstæðri skoðun við hv. minni hl. n. Ég álít enganveginn rétt að láta bæjarstj. meiri hl. hafa óskorað vald yfir skrifstofunni. Ég lít miklu fremur svo á, að verkalýðurinn hefði fyllri rétt til þess að skipa 2/5 af stj., en hér er honum aðeins ætlað að skipa 1/5, en bæjarstj. 2/5.

Hér er ekki deilt um nauðsyn þessarar skrifstofu heldur það, hverjir eigi að hafa drottnunarvaldið yfir henni. Á það má benda, að oddamaðurinn, sem atvmrh. skipar, verðar sennilega með þeim flokkslit - eftir því, hver er ráðh. og hvaða flokk hann fyllir. Ég geri ráð fyrir, að skipaður verði jafnaðarmaður í þetta sinn. Næsti ráðh. skipar væntanlega oddamann með sínum lit, ef hann er ekki jafnaðarmaður. Ef svo vildi til, að núv. þingminnihl. ætti þennan ráðh., er það fullvíst, að hann mundi velja flokksmanna sinn sem oddamann í stj. þessarar skrifstofu, og er ekkert við því að segja. Skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni.