21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. sagðist ekki geta fallizt á, að það væri rétt, að hér væri verið að draga vald úr höndum bæjarstj., því að þær hefðu haft þetta vald undanfarið, en bara ekki notfært sér það fyrr en í Rvík nýlega.

Það, sem ég á við með því að segja, að verið sé að draga vald úr höndum bæjarstj., er það, að samkv. frv. er farið fram á það, að ríkisstj. sé heimilt að neyða bæjarstj. til þess að stofna slíka ráðningarskrifstofu sem hér um ræðir, án tillits til þess, hvort viðkomandi bæjarstj. telur þess þörf eða ekki.

Ég heimfærði undir annan lið það, sem verið er að gera gagnvart Rvík. Það kemur ekkert þessu máli við, hvort bæjarstj. hafa hingað til notfært sér þann rétt, sem þær hafa haft og hafa enn til þess að stofna ráðningarskrifstofu. Bæjarstj. hafa fáar gert það, af því að þær töldu þess ekki þörf. Og þegar það er upplýst, að bæjarstj. telur ekki þörf á slíkri stofnun, þá er ennþá fráleitara að heimila ríkisstj., án þess að bera það undir bæjarstj., að neyða þær til þess að stofna ráðningarskrifstofur. Hv. frsm. sagðist geta tilfært dæmi um það, að slíkar kvaðir væru lagðar á bæjarfél. sem hér um ræðir. Ég get ekki munað eftir neinu hliðstæðu. Ég get ekki munað eftir því, að ríkisstj. sé gefið vald til þess að gefa bæjarstj. eða sýslunefndum fyrirskipanir, sem varða beinlínis einkamál héraðanna. Ég leyfi mér að efast um, að hv. frsm. geti nefnt nokkurt dæmi, en ef hann getur það, væri fróðlegt að fá að heyra það.

Hv. frsm. sagðist álíta, að atvmrh. gæfi ekki fyrirskipun um stofnun skrifstofu, nema hann teldi þess þörf. Nú vil ég spyrja hann, hvort hann sé þeirrar skoðunar, að hæstv. atvmrh. sé dómbærari á þetta en meiri hl. bæjarstj., hvort þörf sé slíkrar stofnunar, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég held, að það sé erfitt að færa skynsamleg rök fyrir því, að ráðh. sé dómbærari í þessu efni en meiri hl. bæjarstj.

Þá vék hv. frsm. að kostnaði þeim, sem þessi till. hefir í för með sér. Hann taldi, að þessi stjórnarnefnd mundi ekki hafa mikið að gera og tæki því ekki mikil laun. Það fer eftir því, hvernig á þetta er litið. Hlutverk vinnumiðlunarskrifstofunnar er talið upp í 2. gr. í 8 liðum. Svo framarlega sem þessu er ætlað að vera meira en á pappírnum, þá er það ekki lítil vinna, sem þessari skrifstofu er ætlað. Ég geri ráð fyrir, að stj. hafi hönd í bagga með þessu öllu. Væntanlega er henni eitthvert hlutverk ætlað. Ég ætla ekki að lesa þessa liði upp, en það er auðsætt við lestur þessara liða, að þar er henni ætlað ýmiskonar verkefni, svo sem söfnun skýrslna og önnur aðstoð við atvinnuleysisskráningu, og fylgjast yfirleitt með atvinnuháttum. Ef stj. á að vera annað en til málamynda, þá er henni mikið starf ætlað, og það er ekki hægt að búast við því, að hún inni það endurgjaldslaust af hendi (MJ: Og 8 liðirnir). Já, það má næstum teygja þetta endalaust.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að fyrir Rvík yrði þessi skrifstofa ekki dýrari með þessu móti en skrifstofa sú, sem þegar hefir verið stofnuð. Þetta getur verið álitamál, því að það getur farið svo, að Rvík haldi áfram þeirri skrifstofu, sem sett hefir verið á stofn, og bæti við annari skrifstofu. Það er vitanlega kostnaðarauki fyrir bæinn.

Hvað Rvík liður í þessu efni, er það augljóst, að hér er verið að baka ríkissjóði útgjöld, sem minni hl. telur óþörf. Rvíkurbæ er ekki ofvaxið að leysa af hendi hlutverk þessarar skrifstofu, og það er ekki vandasamt að gera það án þess að bærinn beri mikinn kostnað af því.

Hv. frsm. talaði um það, að bæir þiggi venjulega framlag úr ríkissjóði. Satt er það að vísu.

Samt hefir Rvík ekki gert mikið að því. En það er ekki keppikefli að fá fjárframlag úr ríkissjóði, ef kostnaður sá, sem á bæjunum hvílir, minnkar ekki við þetta framlag.

Stundum heyrast þau hljóð hér á þingi, að ekki sé bætandi á útgjöld ríkissjóðs. Venjulega er það viðkvæðið, ef stj.andstæðingur kemur fram með till., sem fer fram á aukin fjárframlög úr ríkissjóði. Á öðrum eins tímum og nú eru, ætti ekki að ausa fé úr ríkiskassanum að óþörfu.

Þá kom hv. þm. að því pólitíska ofbeldi, sem talað hefir verið um í sambandi við þetta frv. Það var gott að fá þá játningu af vörum hv. þm. sjálfs, að frv. þetta hefði aldrei verið borið fram, ef bæjarstj. Rvíkur hefði ekki verið búin að setja á stofn ráðningarskrifstofu hér í bænum. Þetta er nú að vísu ekki alveg í samræmi við það, sem flokksbróður hans, hæstv. atvmrh., hélt fram í Nd., er þetta mál var þar til umr. Hann kvað málið vera borið fram af því að stj. teldi brýna þörf á því að koma upp slíkri skrifstofu eða skrifstofum. En ég veit, að hv. 5. þm. Reykv. hefir ekki sagt annað eða meira um þetta efni en hann vissi, að var rétt. En hitt getur verið, að hann hafi verið nokkru opinskárri og hreinskilnari en til var ætlazt. En hann reyndi líka um leið og hann gerði þessa játningu, að koma með nokkrar réttlætingar.

Hann sagði, að verkamenn ættu mest á hættu í því efni, hversu tækist til um slíka stofnun sem þessa og ættu því að ráða um skipun hennar. Mér dettur ekki í hug að neita því, að verkamenn eigi hér mikið í hættu, en hins ber einnig að gæta, að líka veltur á miklu fyrir bæjarfél., að vel takist til um úthlutun vinnunnar, svo að þeir gangi fyrir um vinnu, sem mesta hafa þörfina. Það getur hreint og beint orðið til þess að auka stórum fátækraframfæri bæjarfélaganna, ef illa er á þessum málum haldið. Báðir þessir aðiljar, verkamenn og bæjarfél., eiga því mikið á hættu.

En þess er að gæta hvað verkamenn snertir, að með frv. er þeim eða fél. þeirra alls ekki tryggð nein áhrif á skipun þessara stofnana. Að vísu stendur nú svo á, að í atvmrh.sæti er maður, sem telur sig standa verkamönnum nærri og myndi því tryggja þeim meiri hl. skrifstofustj. á hverjum stað. En vel gæti farið svo, að annar stjórnmálaflokkur tæki völd og beitti áhrifum sínum á skipun þessara stofnana þannig, að verkamenn hefðu þar minni íhlutun heldur en nú, með því móti, að bæjarstj. skipi forstöðumennina. (SÁÓ: Á hv. þm. við það, að verkamenn yrðu betur staddir með því að láta meiri hl. bæjarstj. ráða?). Hvernig yrði þetta þar, sem jafnaðarmenn hafa meiri hl. í bæjarstj.? Myndi hv. þm. fremur kjósa, að ríkisstj., sem mynduð væri t. d. af Sjálfstæðisflokknum skipaði oddamanninn? Með þessu er ég þó alls ekki að segja það, að Sjálfstæðisflokkurinn myndi misbeita þessu valdi sínu. Mér þykir langlíklegast, að hann eða hans stj. myndi velja menn í samræmi við meiri hl. bæjarstj. á hverjum stað. Sjálfstæðisflokkurinn væri einmitt allra flokka vísastur til að sýna sanngirni í þessu efni sem öðrum.

Hv. 4. þm. Reykv. segir, að bæjarstjórnin í Rvík hafi alveg gengið fram hjá minni hl. með því að skipa flokksmann sinn forstöðumann skrifstofunnar. Mér finnst nú sitja heldur illa á þessum hv. þm. að vera að tala um þetta, þar sem hann hefir árum saman stutt þá stj., sem útilokað hefir alla pólitíska andstæðinga frá störfum, og fylgir þeim flokki eða flokkum, sem einskis svífast í þessum efnum.

Auðvitað gat pólitískur andstæðingur meiri hl. bæjarstj. Rvíkur gefizt eins vel í þessa stöðu, en annars er fjarstæða að vera að tala um þetta. Skipanir opinberra starfsmanna sem þessi eru algengar og eðlilegar. Hitt er alveg rétt, að ef maður reynist illa í stöðu sinni, þá á að breyta til, en ég veit ekki til þess, að það sé komið fram enn þá um forstöðumann ráðningarskrifstofunnar í Rvík.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ég myndi vera mótfallinn frv., af því að ég væri ekki nógu kunnugur því, hversu menn væru sniðgengir við úthlutun vinnu hér í bænum, af pólitískum ástæðum. Það er rétt, að ég er ekki kunnugur þessu, og er mjög líklegt, að hv. 4. þm. Reykv. sé kunnugri í þeim efnum en ég, en hitt er mér ljóst, að með þessu frv. er engin trygging fengin fyrir því, að svo verði ekki gert framvegis, og yfirleitt er aldrei hægt að fá fullkomna tryggingu fyrir slíku, hvernig sem meiri hl. skrifstofustj. er skipaður.

Þessi löggjöf er á engan hátt sambærileg við það, að ráðh. skipar sáttasemjara ríkisins. Sú stofnun er alls annars eðlis. Hennar hlutverk er að finna sem fljótasta lausn á vandkvæðum þjóðfélagsins, sem af vinnudeilum stafa, og er því aðeins ætlað að starfa um stundarsakir, en ekki að staðaldri, eins og þeirri stofnun, sem þetta frv. fjallar um.