21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

26. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þeir hv. 2. þm. Rang. og hv. 1. þm. Reykv. hafa lagt mikið upp úr því, að ég sagði, að þetta frv. hefði e. t. v. ekki komið fram ef bæjarstj. Rvíkur, eða meiri hl. hennar, hefði ekki verið búin að setja upp ráðningarskrifstofu. Ég skal nú skýra þetta atriði nokkru nánar.

Þegar meiri hl. bæjarstj. hafði ákveðið að setja á stofn ráðningaskrifstofu, og Alþýðuflokknum hafði verið neitað með atkvgr. í bæjarráði um einn af þremur stjórnendum hennar, en formaður landsmálafél. Sjálfstæðisfl. hinsvegar gerður að forstöðumanni, þá var gengið til þess ráðs, að verkalýðsfélögin settu upp sína ráðningaskrifstofu, þar sem vitanlegt var, að þessa skrifstofu átti að nota í pólitísku augnamiði fyrir Sjálfstæðisfl., með útilokun fulltrúa frá Alþýðufl. við starfrækslu hennar o. fl. o. fl. Þegar ráðningaskrifstofurnar eru þannig orðnar tvær vegna ofríkis og einræðis meiri hl. bæjarráðs og bæjarstj., þá kemur ríkið fram sem þriðji aðili til að brúa djúpið milli hinna tveggja aðiljanna. Af þessum orsökum ber atvmrh. þetta frv. fram. Þetta stendur því allt í sambandi hvað við annað.

Ég læt mig það litlu skipta, þótt andstæðingar málsins kalli þetta pólitískt ofbeldi. Ég hefi þegar tekið það fram og get gert það enn, að verkamenn bera ekkert traust til þeirrar einlitu stj., sem nú veitir ráðningarstofunni í Rvík forstöðu, og það hefir líka komið fram, að þetta vantraust þeirra og ótti við hlutdrægni hefir ekki verið ástæðulaus. Bæjarstjórnarmeirihl. fann engan líklegri forstöðumann en höfuðmann Sjálfstæðisflokksins hér í bænum, fyrrv. formann Varðarfél., sem var tekinn beint úr skrifstofu flokksins og fluttur inn í vinnumiðlunarskrifstofuna til að reka þar sömu starfsemi og áður á bæjarins kostnað, í stað þess að áður hafði flokkurinn orðið að launa honum. (MG: Þetta er ósatt). Ég þarf ekki að nefna nafn mannsins, því að það vita allir, hver hann er.

En þegar svona er komið málum á milli verkalýðsins í Rvík og bæjarstj.meirihl., þá er ekki undarlegt, þótt ríkið komi fram sem þriðji sættandi aðili eins og það hefir gert með þessu frumvarpi.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að á miklu ylti fyrir bæjarfél. um það, að vel tækist til um forstöðu þessarar stofnunar, og vitnaði í því sambandi í fátækraframfærið. En mér er óhætt að fullyrða, að bæjarstj.meirihl. í Rvík, sem stjórnar með harðri hendi án minnsta tillits til andstæðinganna, hefir ekki alltaf orðið til þess að draga úr fátækraframfærinu. Ég skal ekki segja um það, hvort þetta frv. verður til bóta í því efni, en það er þó alltaf tilraun í þá átt.

Það er rétt, að ekki er tryggt með þessu frv., að verkamenn hafi meirihlutaaðstöðu í stj. þessara stofnana til frambúðar, og tel ég það galla á frv. En þeir eru betur settir en áður, meðan núv. stj. fer með völd.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að þetta frv. væri alls annars eðlis en löggjöfin um sáttasemjara. En ég tel þetta alveg hliðstætt. Með frv. á að jafna deilurnar milli verkalýðsins og bæjarstj., sem nú hafa sína ráðningarskrifstofuna hvort.

Mér heyrðist hv. 2. þm. Rang. fallast á það, að þörf væri á stofnun sem þessari, enda veit ég, að hann er svo sanngjarn maður, að hann hlýtur að sjá þá þörf. Það er staðreynd, sem ekki verður neitað, að til eru þeir menn meðal atvinnurekenda og jafnvel í meiri hl. bæjarstj. Rvíkur, að þeir velja menn í vinnu eftir stjórnmálaskoðunum þeirra. Og engum er kunnugra en mér um þann ótta verkamanna, að hægt sé að útiloka þá frá störfum og hafa yfir þeim þá svipu, að þeir skuli ekki fá mat né vinnu, ef þeir verði ekki góðu börnin og hafi þær skoðanir, sem atvinnurekendunum þóknast. Þennan ótta á frv. þetta, ef það verður að l., að geta útilokað.