18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

34. mál, bráðabirgðaútflutningsskýrslur

Finnur Jónsson:

Ég sé, að hv. frsm. þessa máls er ekki viðstaddur í hv. d., og er mér kunnugt um, að það stafar af veikindum. En ég skal taka það fram, að þetta mál hefir tafizt af óvenjulegum ástæðum af hálfu sjútvn. Það var samþ. í n. 2. nóv. og afgr. þar, en hv. frsm. gleymdi beinlínis að skila þessari hv. d. nál. Af þessari ástæðu er málið svo seint fram komið í hv. deild.

Þetta frv. er stj.frv., sem lagt hefir verið fyrir Ed. og verið samþ. þar í hv. sjútvn. 2. nóv. kemur það svo til sjútvn. hv. Nd. og er samþ. þar í einu hljóði. Það er því auðséð af því, sem nú var sagt, að það er rétt, sem hv. þm. G.-K. tók fram, að þetta mál væri ekkert flokksmál. því að það getur í eðli sínu alls ekki verið það.

Það er mjög nauðsynlegt, að Fiskifélagið fái lögverndaða þessa merkilegu skýrslusöfnun. Það er vitanlega engin ástæða til þess að neita um þetta. Þar sem Fiskifélagið er þegar búið að safna samskonar skýrslum og talað er um í frv., þá má gera ráð fyrir, að þetta frv. verði byggt á þeirri reynslu, sem Fiskifélagið hefir aflað sér í þessari skýrslusöfnun. Ég vænti þess því, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi.

Í grg. Fiskifélagsins er tekið fram, að nauðsynlegt sé, að þessi skýrslusöfnun fylgist sem bezt með tímanum, vegna verzlunarsamninga við erlend ríki. Eins og högum okkar er nú háttað í þessu efni, er sérstök ástæða fyrir okkur að sjá um, að mál þetta verði ekki tafið, en nái fram að ganga á þessu þingi.