19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jónas Guðmundsson:

Á þskj. 893 er brtt., sem við flytjum 4 þm., sem sæti eigum í fjvn., um, að ríkisstj. sé heimilt að fresta framlagi til malbikunar vega til þeirra kaupstaða og verzlunarstaða, sem ekki leggja tilskilinn hluta á móti ríkisframlaginu, og framkvæma ekki malbikun á árinu 1935. Eins og hv. þdm. muna, á að skipta 15% af bifreiðaskattinum milli bæja og kaupstaða eftir reglugerð, sem ríkisstj. setur. Það fé, sem kaupstaðirnir leggja ekki fram á móti, á að setja í sjóð, er geymist í vörzlum atvmrh. Nú er það svo, að á þessu þingi hefir verið lagt óvenjumikið fé fram til vegagerðar. Því fannst fjvn. rétt að taka eitthvað af þessu fé og verja einnig til þess. En þetta nær aðeins til þeirra kauptúna, sem ekki leggja fram fé í malbikun. Það er því ekki gengið á rétt þeirra sveitarfélaga, sem aðstöðu hafa til þess að leggja fram fé til malbikunar. Vænti ég, að þetta valdi ekki ágreiningi.